135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[22:33]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef beðið um að fá að flytja seinni ræðu mína, innan tíðar vænti ég, og þá mun ég fara betur yfir þær tölur sem hv. þm. Ásta Möller var með varðandi umdeilt útboð á öldrunardeildinni á Landakoti. Tölurnar sem þingmaðurinn fór með voru ekki réttar. Hins vegar gefst illa tækifæri til þess í tveggja mínútna andsvari að fara í tölur. Mig langar í þessu andsvari að ræða aðeins hvers vegna hv. þingmaður vill ekki nota hugtakið einkavæðing. Af hverju skyldi það nú vera? Skyldi það vera af því að það sé eitthvað viðkvæmt fyrir Sjálfstæðisflokkinn? Nei. Í landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins segir, með leyfi forseta:

„Því ber að huga að enn frekari einkavæðingu á öðrum sviðum svo sem á sviði heilbrigðis-, mennta- og orkumála.“

Ég held að allir hljóti að skilja þetta. Ef hugtakið „einkavæðing“ er túlkað samkvæmt amerísku leiðinni sem hv. formaður heilbrigðisnefndar leyfði sér að gera hér áðan, að þá fari allt, bæði fjármögnun og rekstur — þá er stefna Sjálfstæðisflokksins öllu ískyggilegri en menn hafa haldið hingað til. Þá er verið að tala um prívat-einkavæðingu og við skulum horfa til þess að í Svíþjóð er einungis 1% af allri heilbrigðisþjónustu í landinu rekið með fullkominni einkavæðingu eins og þingmaðurinn skilgreinir. Samkvæmt Sjálfstæðisflokknum á að gera það á sviði heilbrigðis-, mennta- og orkumála og ég hlýt að spyrja: Er einhver mismunur (Forseti hringir.) á skilningi Sjálfstæðisflokksins og þingmannsins á þessu hugtaki?