135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[22:35]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel þetta vera útúrsnúning hjá hv. þingmanni. Ef hann hefði lesið landsfundarályktun varðandi velferðarmál sæi hann að þar er ekki notað orðið „einkavæðing“ heldur hugtök eins og „fjölbreyttari rekstrarform“ og „einkarekstur um heilbrigðisþjónustu“. Sá texti sem hv. þingmaður vísar í er í landsfundarályktun um atvinnumál eða iðnaðarmál, ég man ekki hvað það var þar sem hugtakið „einkavæðing“ er notað en það er notað til að lýsa iðnaðarmálum o.s.frv. með þeim hætti sem hv. þingmaður segir frá en ekki með þeim skilningi sem hv. þingmaður leggur í það. Hann notar hugtakið „einkavæðing“ yfir alla þessa þætti, líka einkarekstur sem fjármögnun er ekki sett yfir. Ég get alveg fullvissað hv. þingmann um að einkavæðing í heilbrigðisþjónustu í þeim skilningi að fjármögnun og rekstur fari yfir eins og hið ameríska kerfi, eins og grýlan sem hv. þingmenn Vinstri grænna hafa haldið á lofti, stendur ekki til. (Gripið fram í.) Eftir alla þá umræðu sem farið hefur fram í vetur og síðasta vetur og síðustu missiri vitum við, bæði ég og hv. þingmaður, nákvæmlega um hvað málið snýst og þurfum ekki að þvæla það fram og til baka. Þess vegna hef ég forðast að taka þessa umræðu því að við vitum nákvæmlega hvað við erum að ræða um og þurfum ekki að rugla almenning frekar í því.