135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[22:37]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert að heyra að það eru aðrar umbúðir notaðar þegar landsfundur Sjálfstæðisflokksins skrifar kaflann í landsfundarályktunina um velferðarmál en þær sem eru notaðar í einhverjum öðrum kafla sem ég veit ekki hvað heitir og hv. þingmaður telur að geti kannski hafa verið um iðnaðarmál eða atvinnumál eða eitthvað þess háttar. Þar eru notaðar fallegri umbúðir, svo sem einkarekstur og annað. Það eru einmitt þær umbúðir sem búið er að flagga í dag.

Það er nefnilega mjög mikilvægt að Samfylkingin þurfi ekki að gangast við því að hér er verið að stíga afdrifarík skref til að einkavæða heilbrigðisþjónustuna okkur. Ég minni á, eins og kemur fram í nefndaráliti okkar hv. þm. Þuríðar Backman, að þessir sjö Svíar sem við hittum voru ekkert feimnir við að viðurkenna skilgreiningu sína á því hvað einkavæðing í heilbrigðisþjónustu væri. Það var nákvæmlega það sem við höfum verið að lýsa hér, þetta er yfirhugtak en þegar rekstur og ábyrgð á rekstri eru flutt frá opinberum aðila yfir til einkaaðila — enda þótt fjármagnið komi frá ríkinu — er um einkavæðingu að ræða samkvæmt þeirri skilgreiningu.