135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[22:41]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert að formaður heilbrigðisnefndar, hv. sjálfstæðisþingmaðurinn Ásta Möller, virðist hafa komið sér upp alveg sérstakri skilgreiningu, níðþröngri skilgreiningu á því hvað kalla megi einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni. Það er sem sagt bara kerfi sem er algerlega einkarekið, bæði af þeim sem veitir þjónustuna og sem notandinn borgar fyrir sjálfur. Ég held að fæstir leggi þennan þrönga skilning í. Það er auðvitað gild spurning að spyrja hv. þingmann: Um hvað var eiginlega Sjálfstæðisflokkurinn þá að álykta þegar hann sagði: Því ber að huga að enn frekari einkavæðingu á öðrum sviðum, svo sem á sviði heilbrigðis-, mennta- og orkumála? Var þá Sjálfstæðisflokkurinn að álykta um þessa einkavæðingu sem hv. þm. Ásta Möller talaði um, að menn ættu bæði að borga fyrir þjónustuna og einkaaðilar að veita hana?

Ég hef mikinn áhuga á því líka. Það er augljóst að hér er orðum hagað væntanlega af einhverri tillitssemi við Samfylkinguna aðallega sem má helst ekki heyra á það minnst að hér sé verið að breyta einhverju, hér séu bara einhverjar tæknilegar lagfæringar þó að það sé Sjálfstæðisflokkurinn sem reki þessa hluti áfram.

Mér leikur hugur á að vita hvað er fram undan þegar formaður Sjálfstæðisflokksins talar um á fundi í Valhöll að nú verði tekið til hendinni, að fram undan séu verulegar breytingar á heilbrigðiskerfinu þar sem hann útskýrir hið nýtilkomna stjórnarsamstarf, talar um mikilvægi þess að aðgreina kaupendur og seljendur þannig að hægt sé að hleypa fleirum inn í reksturinn. Hann segir svo að þetta sé mikilvæg breyting sem ekki sé byrjað að sjást mjög mikið en að mikið sé í pípunum.

Þarna er verið að boða eitthvað mikið. Þarna er verið að boða að það eigi að taka til hendinni. Það séu miklar breytingar í vændum í málaflokknum. Af hverju er þessi feluleikur? Af hverju leggja menn ekki spilin heiðarlega á borðið og af hverju tala þá ekki sjálfstæðismenn skýrt í þeim efnum? Hversu mikla uppstokkun og eðlisbreytingu stefna þeir á í heilbrigðiskerfinu?