135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[22:44]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er með fyrir framan mig umsögn Alþýðusambands Íslands sem er mjög athyglisverð og vísar m.a. til fyrri samþykkta þeirra frá þingum sambandsins. Alþýðusamband Íslands og BSRB lýsa ánægju sinni með þetta frumvarp. Þar segir einmitt, með leyfi forseta:

Nú þegar ýmis vel heppnuð dæmi um þátttöku einkarekinna stofnana á vegum félagasamtaka og almannaheillafyrirtækja í umönnun eldra fólks, barna og endurhæfingu og áfengis- og vímuefnameðferðar. Hugsanlega má styðjast við þessi dæmi við frekari útfærslu á þjónustutilboðum.

Hérna notar ASÍ einkarekstur með sama hætti eins og við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og ég geri ráð fyrir að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon geri athugasemdir við þessa notkun eins og ýmislegt annað. En það er alveg ljóst að við erum ekki að tala fyrir einkavæðingu í þeim skilningi sem ég hef verið að lýsa í dag og þess vegna hef ég ekki notað það orð. Það er bara ekki í mínum orðaforða varðandi heilbrigðisþjónustuna en það er í mínum orðaforða varðandi bankana, skipaútgerðina og fleiri þætti sem hafa verið færðir alfarið frá ríkinu yfir til einkaaðila með góðum árangri. Um það er ekki að ræða varðandi heilbrigðisþjónustuna en hins vegar er verið að skoða breytt rekstrarform. Það er verið að skoða aukið samstarf við einkaaðila, það er ekkert leyndarmál, það stendur bæði í landsfundarályktunum og í samþykkt um stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, algerlega burt séð frá þessu frumvarpi eins og ég nefndi áðan. Það er engin forsenda fyrir því að fara þá leið. Sú leið er þegar opin í dag og hefur verið farin. 30% af heilbrigðisþjónustunni eru hjá einkaaðilum í þeim skilningi sem ASÍ skilgreinir, eins og ég las upp áðan. Meðal annars mundi ég telja að heilsugæslan lægi þar undir. Yfir 90% af heilsugæslunni eru í rekstri hins opinbera og ég tel að það sé bæði vilji (Forseti hringir.) hjá heilsugæslustöðvum og ríkisstjórnarflokkunum til að setja meira af heilsugæslunni í einkarekstur.