135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[23:06]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það hefur margt mjög athyglisvert komið fram í þessum umræðum í dag og kannski ekki síst í kvöld, þó einkum og sér í lagi í svari hv. formanns heilbrigðisnefndar við þeirri spurningu formanns Vinstri grænna um hvað væri í pípunum og þá á ég við þessa makalausu yfirlýsingu um að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu ætti að fá annað rekstrarform. Ég vil minna á að sl. vetur var skipuð nefnd til að endurskoða eða skoða stöðu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og gera tillögur, m.a. um rekstrarform ef ég man rétt. Sú nefnd átti að skila áliti í apríl sl. Það skyldi þó ekki vera að menn séu að bíða eftir því að þetta frumvarp sem hér er verði að lögum til að virkja það sem hér var bent á áðan, þær valdheimildir sem þar er að finna í lögum til ráðherrans um að móta, marka og framfylgja stefnu sem hentar þeirri pólitík sem hann rekur hverju sinni? Ég vil því spyrja hv. þm. Ástu Möller um það hver sé þá staða þeirrar heilbrigðisáætlunar sem Alþingi samþykkir til 10 ára þegar búið er að lögfesta að þetta eigi allt saman að vera í höndum ráðherrans.

Það var athyglisverð umræðan um umbúðir og innihald. Það liggur mikið við að kalla þetta ekki einkavæðingu. Þetta er búið í umbúðir eins og meiri hagkvæmni, aukið valfrelsi, hámarksgæði og nýta kosti einkarekstrar, auka fjölbreytni, efla samkeppni til að lækka verð, stytta biðlista og jafnvel að hækka laun starfsmanna. En einkavæðinguna má ekki nefna. Og það er auðvitað ekki nema von eins og hv. formaður heilbrigðisnefndar sagði áðan að menn eigi erfitt með annað en lýsa stuðningi við málið, eins og ítrekað hefur verið rakið hér og lesið upp úr umsögnum aðila vegna þess hvernig umbúðirnar eru. Þær eru til þess fallnar að fela innihaldið eins og hv. þm. Ásta Möller sagði áðan. Það gildir eitt hjá Sjálfstæðisflokknum þegar verið er að tala um velferðarmál og annað um aðra málaflokka.

Það eru gríðarlega miklar væntingar bundnar við þetta vegna þessara yfirlýsinga í kerfinu öllu og það hefur margt verið rakið í dag. Ég minnist eins álits þar sem var sagt: Ég fagna þessari stórkostlegu breytingu og hlakka til að sjá árangurinn. Við vorum einmitt vöruð við því í Svíþjóð hversu gríðarlega miklar væntingar voru til þessarar kerfisbreytingar og ég vil biðja menn um að fara varlega í því að láta alla halda að hér sé komin ein allsherjartöfralausn á öllu sem bjátar á í heilbrigðisþjónustunni.

Hér hefur verið rætt nokkuð um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu sem reynst hefur skattgreiðendum dýrari og ákveðin hefur verið á undanförnum mánuðum. Hér hefur sérstaklega verið rætt um útboð á öldrunardeild á Landakotsspítala sem var boðin út í mars sl. með 18 hjúkrunarrúmum í þeim yfirlýsta tilgangi að ná aukinni hagkvæmni í rekstri. Það bárust tvö tilboð og þau voru bæði hærri en kostnaður við rekstur deildarinnar hafði verið til þessa. Og þvert á öll hagkvæmnissjónarmið var öðru tilboðinu tekið. Í því fólst 21 þús. kr. á sjúkrarými á dag. Það náðist að lækka það niður í 19.700 kr. á dag en sú upphæð er þó 8% hærri en þær 18.260 kr. sem fóru í hvert sjúkrarými fyrir útboð. Nú vil ég, hv. þm. Ásta Möller, leiðrétta það sem hér kom fram áðan, og ég bið hv. þingmann þá að leiðrétta það til baka, að auk þessara 8% hærri greiðslu leggur Landspítalinn til hjúkrunarfræðing á vakt allar nætur um helgar til viðbótar og lengir samningstímann.

Með því að rekja þetta er ekki verið að kasta rýrð á þann sem tekur að sér þennan rekstur. Með því að rekja þetta er verið að benda á hvernig sú stefna sem hér er verið að leiða í lög leikur skattgreiðendur á Íslandi. Það er það sem er daprast við þetta, að væntingarnar sem eru til þess að þetta verði ódýrara og hagkvæmara, það bendir öll reynsla hjá okkur til þess að þetta muni verða skattborgurunum dýrara.