135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

afdrif þingmannamála – efnahagsmál.

[13:34]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að ræða um störf þingsins og þá sérstaklega um afdrif svokallaðra þingmannamála á því þingi sem nú er að klárast. Mig langar að nefna nokkrar tölur.

Nú hefur forseti gefið það út að fyrir þingið voru lögð fram 145 frumvörp og þingsályktunartillögur frá ríkisstjórn og af þeim voru 120 samþykkt. Á sama tíma voru lögð fram 74 frumvörp frá þingmönnum og tvö samþykkt og 78 þingsályktunartillögur þar af 8 samþykktar. Þessi þingmannamál eru auðvitað bæði frá stjórn og stjórnarandstöðu og það sem mig langar að ræða hér undir þessum lið, um störf þingsins, er í rauninni hvernig hæstv. forseti sér störf þingsins þróast og hvort hann telji það æskilegt að svona mörg mál þingmanna dagi uppi í nefndum, fái þar ekki efnislega meðferð og efnislega afgreiðslu, séu send út til umsagnar og komi svo aftur til kasta þingsins og hvort hæstv. forseti sjái einhvern flöt á því að mál þingmanna fái í auknum mæli efnislega meðferð og afgreiðslu úr nefndum, hvort og þá hvernig hann gæti beitt sér í því máli og hvort hann sjái fyrir sér einhverja framtíð í því að þingið fari í auknum mæli að verða vettvangur þingmanna til að koma sínum málum á framfæri fremur en eingöngu ríkisstjórnar. Eða hvort hann telur að sú þróun sem hér hefur verið sé æskileg, þ.e. að megnið af málum framkvæmdarvaldsins séu samþykkt meðan hin sitja eftir.