135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

afdrif þingmannamála – efnahagsmál.

[13:42]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað um þau alvarlegu mál hvað Alþingi Íslendinga er ríkisstjórnarliðuð stofnun, þ.e. að það fást nánast ekki afgreidd önnur mál en þau sem eru þóknanleg ríkisstjórn hverju sinni. Ég tek undir með hv. þm. Guðna Ágústssyni að forseti Alþingis hefur lýst því yfir og haft vilja á því að gera þarna ákveðnar breytingar. Við afgreiðslu á þingskapafrumvarpinu fyrir síðustu jól gerði ég það að sérstöku umræðuefni að það skipti verulegu máli að Alþingi færi að líta á störf sín með öðrum hætti en hingað til hefur verið, tæki meira tillit til þingmanna sem einstaklinga, til þeirra mála sem þeir bera fram og bæri meiri virðingu fyrir sjálfu sér. Það segi ég vegna þess að ég tel ekki vera virðingu fyrir þingstörfum þegar stjórnarfrumvörp hvert af öðru renna í gegn en þingmannamál, þingsályktanir og annað sem alþingismenn hafa fram að færa daga uppi, eru ekki afgreidd, eru ekki rædd í þeim nefndum sem þeim er vísað til. Það gengur ekki og það er ekki ásættanlegt. Það er spurningin með hvaða hætti eigi að fara að. Það væri eðlilegt að orða ákveðna reglu um það að mál væru tekin fyrir í ákveðinni röð, þess vegna í nefndum þingsins nema um væri að ræða ákveðin afbrigði varðandi það með hvaða hætti og hvernig mál væru þá tekin fram fyrir. Það er eitt atriði sem mætti hugsa sér. En það skiptir gríðarlegu máli varðandi virðingu Alþingis og varðandi það að þingmenn beri virðingu fyrir sjálfum sér og störfum sínum, að það sé tekið eðlilegt tillit til þeirra og starfa þeirra. Ég tek undir með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, ég hygg að nýjum þingmönnum úr öllum flokkum hafi brugðið í brún við að sjá ríkisstjórnarmiðaða starfsemi sem þingið býr við í dag, því miður.