135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

afdrif þingmannamála – efnahagsmál.

[13:44]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og þakka svör forseta. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við saman í þessum sal beitum okkur fyrir því að efla Alþingi og ég held að mjög stór hluti af því sé að koma því til leiðar að mál þingmanna fái efnislega afgreiðslu og við virkum ekki eingöngu sem afgreiðslustöð. Ég veit að þar tala þær tölur sínu máli sem ég nefndi hér áðan. Af 145 ríkisstjórnarmálum eru 120 samþykkt, af 74 þingmannafrumvörpum eru tvö samþykkt. Þingsályktunartillögur eru miklu fleiri og örfáar samþykktar. Mér finnst þetta því skipta mjög miklu máli, að efla sjálfstæði þingsins og ég fagna því að þeir sem hér hafa tekið til máls eru mér sammála um þetta og ég hvet því hæstv. forseta til dáða, til þess að fara af stað með slíka vinnu að skoða þá möguleika sem á því eru að þingmannamál fái efnislega afgreiðslu og við getum saman styrkt þingið sem sjálfstæða löggjafarsamkundu.