135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

afdrif þingmannamála – efnahagsmál.

[13:50]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir að brydda upp á þessu máli. Þetta er mjög mikilvægt mál. Við upplifum núna vandamál víða um heim. Í Bandaríkjunum eiga bankar í miklum erfiðleikum, í Danmörku fór einn banki á hausinn, frá Spáni, Ítalíu og víðar á evrusvæðinu, Bretlandi heyrum við víða merki um þá áhættufælni og lánsfjárskort sem ríður yfir heiminn. Hér á landi hefur þetta valdið skyndilegu gengisfalli, verðbólguskoti og háum vöxtum Seðlabankans. Eitthvað af þessu kann að vera innlent líka, innlendur vandi en að mestu leyti held ég að þetta komi erlendis frá.

Til þess að mæta þessu þá höfum við verið að styrkja Seðlabankann og það eru áform um að gera það enn frekar. Það eru miklar arðbærar framkvæmdir á döfinni, nýting á auðlindum okkar og svo vil ég minna á það að við erum búin að gera stórátök í því að breyta menntakerfinu og það mun að sjálfsögðu skila sér til langframa. Það er sem sagt verið að vinna að mörgum atriðum sem eiga að hjálpa okkur í þessari baráttu. En það er rétt hjá hv. þingmanni, það er mjög mikilvægt að auka hagvöxtinn og koma honum aftur upp. Ég hygg að nýting auðlinda, bæði sjávarauðlinda, orkuauðlinda og ekki hvað síst mannauðsins eigi að skila sér í auknum hagvexti innan ekki langs tíma.

Á undanförnum árum höfum við breytt miklu. Við erum búin að skjóta fjórum stoðum undir hagkerfið í staðinn fyrir að hafa bara eina. Áður var það bara sjávarútvegur sem stóð undir 70% útflutnings. Nú er það sjávarútvegur, álframleiðsla og ferðamannaiðnaður auk fjármálastarfsemi. Og af þessum fjórum er ein í vandræðum og hinar þrjár í góðu gengi.

Þess vegna held ég að hér sé um skammtímavandamál að ræða og ég vona það. En ef svo er ekki verðum við að treysta á það sem segir í mati sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en þar segir (Forseti hringir.) að efnahagshorfur á Íslandi séu öfundsverðar, markaðir séu opnir og sveigjanlegir og frumkvöðlakraftur mikill.