135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

afdrif þingmannamála – efnahagsmál.

[13:52]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Út af því að hér var spurt um það hvernig ætti að auka hagvöxtinn þá er rétt að við gerum okkur grein fyrir því að hagvöxtur mælir aukningu landsframleiðslu á ákveðnum tíma eftir að tekið hefur verið tillit til verðbólgunnar.

Ég vil örlítið víkja að öðru máli er varðar hagvaxtarumræðu. Nú er mikið rætt og ritað um kostnað við aðild að ESB og upptöku evru. Í frægri grein á sínum tíma fjölluðu hagfræðingarnir Jeffrey Frankel og Andrew Rose um rannsóknir sínar á áhrifum sameiginlegrar myntar á útflutning og hagvöxt. Í þeirri umræðu sem varð í kjölfarið vantaði tilfinnanlega sýn á það hver heildarávinningurinn af aðild gæti verið. Í grein þeirra var leitast við að leggja heildstætt mat á ávinninginn bæði með lækkun á kostnaði í hagkerfinu og aukningu á hagvexti. En almennt er álitið að mestu áhrifin fylgi upptökum evrunnar.

Víðtækar rannsóknir á áhrifum sameiginlegrar myntar á hagvöxt hafa leitt í ljós að sá ávinningur er töluverður. En til að fá heildarsýn á ávinninginn er gagnlegt að fara yfir og meta einstök atriði þótt óumflýjanlega sé það háð nokkurri getspá.

Þorsteinn Þorgeirsson hagfræðingur birti á sínum tíma þá niðurstöðu að kostnaður í hagkerfinu muni lækka við inngöngu í ESB og upptöku evrunnar og hagvöxtur gæti aukist varanlega um allt að 0,5% á ári. Á meðan Ísland stendur utan ESB og myntsamstarfsins munu fyrirtæki í samkeppnisgreinum þola hátt vaxtastig og gengissveiflur. Þá er viðbúið að skuldsetning þjóðarbúsins komi til með að hafa letjandi áhrif á hagvöxt til lengri tíma litið.

Virðulegi forseti. Stjórnarsáttmálinn er skýr og nú þegar hefur verið sett niður Evrópunefnd til að fara yfir málin til markvissrar Evrópuumræðu. Brýnt er að sem flestir hagsmunaaðilar komi að þeirri vinnu þannig að þjóðarsátt geti náðst um niðurstöðuna. Með vel ígrundaðri niðurstöðu um efnahagsleg áhrif ESB-aðildar og evrunnar verðum við færari um að vega og meta það í samhengi við aðra þætti, eins og menningu og stjórnarfar og um leið hagvaxtarumræðu.

Það mun auðvelda okkur öllum (Forseti hringir.) að taka skynsamlega ákvörðun þegar þjóðaratkvæði verða greidd á lýðræðislegan hátt í þessu mikilvæga máli.