135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:12]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Markmið þessara laga er ágætt en ég vil halda því til haga að árangur þessarar lagasetningar byggist mjög mikið á framkvæmdinni. Þetta er í raun tæki til þess að gera allt mögulegt og vegna þess að við framsóknarmenn erum ekki tilbúnir til þess að taka ábyrgð á því hvernig framkvæmdarvaldið mun fara með framkvæmd laganna þá munum við sitja hjá við lokaafgreiðslu málsins.

Hvað varðar breytingartillögur þá munum við ekki standa að samþykkt breytingartillagna meiri hlutans sem varða slysatryggingar þar sem það hefur lítið verið rætt í nefndinni og er ekki sannfæring mín að það sé rétt að þær falli undir sjúkratryggingar. Við munum sitja hjá við þá atkvæðagreiðslu.