135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:18]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Töluliðir 4 og 6 á þessu breytingartillöguskjali lúta að okkar dómi, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að sjálfsögðum og löngu tímabærum lagfæringum á þeim ákvæðum sem gilda annars vegar um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við fargjöld þegar flytja þarf börn og flutningur er óhjákvæmilegur, eins og þar segir og að endurgreiðslan miðist þá við fargjald beggja foreldra í stað annars foreldris eða fylgdarmanns.

Í 6. töluliðnum er þetta dvalarkostnaðurinn. Þar er sömuleiðis um óhjákvæmilega dvöl barns að ræða fjarri heimili á sjúkrastofnun og það hlýtur að teljast mikil forneskja að þá taki sjúkratryggingarnar aðeins til fargjalds annars foreldrisins. Og að lokum er svo hið sama lagt til hvað varðar börn þegar um verulega fötlun er að ræða. Þetta eru ekki stórir útgjaldaliðir en mikið réttlætis- og jafnréttismál (Forseti hringir.) og ég hvet nú hv. þingmenn til að velta því fyrir sér hvort hér fari allt á hvolf þótt þessi lagfæring verði gerð.