135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:32]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér eru hv. þingmenn Vinstri grænna að rugla saman annars vegar greiðslu og samningum um þjónustu og hins vegar kjarasamningum. (Gripið fram í: Nei, nei.) Í 39. gr. segir í greinargerð með frumvarpinu: „Ekki er gert ráð fyrir að stofnunin semji við fagfélög eða stéttarfélög eins og tíðkast hefur.“

Þess má geta að í núgildandi lögum um almannatryggingar eru fag- og stéttarfélög ekki sérstaklega tilgreind sem samningsaðilar þótt hefðin hafi orðið sú. Með þessari breyttu nálgun mun fag- og stéttarfélag gagnvart félagsmönnum sínum í samningsgerð verða með öðrum hætti en nú er og verða í formi ráðgjafar og stuðnings í stað þess að vera beinir samningsaðilar við hina nýju stofnun. Með þessu opnast jafnframt möguleikar á að semja um heilbrigðisþjónustu með fleiri en einum fagaðila um rekstur tiltekinnar starfsemi sem rekin er á þverfaglegum grunni eins og t.d. er gert við opinberar stofnanir. Jafnframt gefst kostur á samningum um sérhæfðari þjónustu en nú hefur verið gerð þegar heildarsamningur hefur verið gerður af stéttarfélögum um þjónustu viðkomandi stéttar. Með þessum rökstuðningi segi ég nei við breytingartillögu minni hluta heilbrigðisnefndar við 39. gr. frumvarpsins.