135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:34]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræddum um þingið áðan. Á hvaða klafa eru hv. alþingismenn? Á hvaða vegferð eru samfylkingarþingmennirnir við þessar aðstæður? Það er búið að setja upp í þá múlinn og það er heilbrigðisráðherra sem teymir þá alla í lest. Þetta er frjálshyggjuleið Sjálfstæðisflokksins. Þeir fýla grön, ungir jafnaðarmenn mótmæla, því þeir skilja stéttarfélög og frelsi.

Hér er verið að stíga stórt skref. Hvar er félagafrelsið? Hvar er frelsi stéttarfélaganna? Hvar er samningafrelsið fallega og frjálsa, sem Samfylkingin hefur talað svo fallega um? Hún étur fóðrið sitt, hún er gengin inn í Sjálfstæðisflokkinn í mörgum málum og fylgir honum í blindni. Þannig er þessi staða.

Hér er verið að banna með lögum ákveðið frelsi sem verið hefur við lýði í landinu. (Forseti hringir.) Hér er verið að banna með lögum ákveðið frelsi sem hefur verið til staðar í landinu. Ég hef lesið þetta frumvarp frá A til Ö. (Forseti hringir.) Ég veit vel hvað ég er að tala um þannig að mér finnst að Samfylkingin hafi hér, hæstv. forseti, orðið sér til skammar og sé að ganga gegn öllum fyrri viðhorfum til verkalýðsfélags og samningsréttar. Ég segi eðlilega já.