135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:43]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Prófessor við Háskóla Íslands, sérfróður um mismunandi rekstrarform í heilbrigðisþjónustu, fullyrðir að með þessu frumvarpi séu stjórntæki til einkavæðingar heilbrigðisþjónustunnar stórlega efld. Hann segir líka að hið nýja fyrirkomulag muni leiða til aukins heildarkostnaðar við heilbrigðisþjónustuna á Íslandi. Ég óttast að hann muni reynast sannspár.

Ferlið er alltaf eins. Almenna þjónustan er svelt. Hún getur ekki sinnt hlutverki sínu sem skyldi en fær fjármagn þegar hún er komin út á markað nema hvað þá aukast álögurnar á notendur. Dæmi um þetta er t.d. tæknifrjóvgun. Þar hafa biðraðir styst en kostnaður notenda aukist. Opinberri verðskrá er haldið svipaðri en einkavæddur rekstraraðili í einokunarstöðu færir ný gjöld yfir á notendur.

Hæstv. forseti. Með því að hleypa markaðslögmálunum inn eftir spítalagöngunum inn í heilbrigðiskerfi landsins, þá verður kerfið dýrara. Það verður óhagkvæmara, það verður óskilvirkara og á endanum ávísun á félagslega mismunun.