135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:46]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það vekur óneitanlega nokkra athygli að aðeins einn af ráðherrum Samfylkingarinnar sér ástæðu til að vera viðstaddur þessa atkvæðagreiðslu. Það verður a.m.k. ekki sagt að þeir leggi mikið á sig til að koma málinu í gegn og hugsanlega er a.m.k. einhverjum þeirra ekki eins rótt og varaformanni flokksins, hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, og þeir ekki jafnglaðir yfir þessu máli og hann. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs erum algerlega andvíg grundvallarbreytingu í átt til aukinnar markaðsvæðingar og einkavæðingar heilbrigðiskerfisins eins og hér hefur verið pakkað inn í silkiumbúðir. Við höfum reynt að fá grundvallarumræðu um þetta mál og höfum barist fyrir því að breyta því eða laga það til alveg fram á síðustu stundu. Breytingartillögur okkar hafa allar verið felldar og þá sjáum við okkur ekki annað fært en að greiða atkvæði gegn málinu og það helgast auðvitað fyrst og fremst af andstöðu okkar við þá hugmyndafræði, markaðsvæðingar og einkareksturs í ágóðaskyni sem hér á að fara að ryðja braut inn í sjálfan kjarna íslensku heilbrigðisþjónustunnar. Gróðahyggjan á hér eftir að verða lögmætt viðmið í heilbrigðisþjónustu á Íslandi.