135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:47]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka þingmönnum og þá sérstaklega hv. heilbrigðisnefnd fyrir starfið í kringum þetta frumvarp. Ég efast um að í annan stað eða í það minnsta ekki oft hafi menn unnið jafnvel að nokkru máli eins og nú hefur verið gert í þinginu og það hefur verið tekinn sá tími sem menn hafa talið þurfa til að vinna þetta mál eins vel og gaumgæfilega og nokkur kostur er. Ég tel að þrátt fyrir allt hafi umræðan í þinginu að mestum hluta verið upplýsandi og góð fyrir málaflokkinn. Á því eru mjög áberandi undantekningar eins og við þekkjum og kannski var síðasta ræða hv. þingmanns skýrt dæmi um það. Ég tel það varhugavert þegar menn í fullri alvöru reyna að gera ákveðinn aðila innan heilbrigðisþjónustunnar og stjórnmálamenn tortryggilega með þeim hætti sem hér er gert. (Gripið fram í.) Allir Íslendingar eru sammála um það — virðulegi forseti, (Gripið fram í.) ég vil biðja um hljóð til að geta haldið þessa ræðu — allir Íslendingar eru sammála um að (Forseti hringir.) við viljum hafa heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða fyrir alla landsmenn. Hér hefur verið farið að ráðum (Forseti hringir.) færustu aðila, menn hafa skoðað hvar hefur gengið vel annars staðar og menn eru að styrkja svið okkar til að ná því takmarki og ég óska ykkur öllum til hamingju með þessa löggjöf.