135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

námslán námsmanna erlendis.

658. mál
[14:51]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra út í kjör námsmanna erlendis en við Íslendingar búum sem betur fer við það lán að margir kjósa að ná sér í aukna þekkingu með því að fara utan og stunda nám. Það er mikill akkur fyrir þjóðfélagið því oftar en ekki kemur þetta fólk heim, þjóðinni til heilla eins og dæmin sanna. Hins vegar hefur þróun íslensku krónunnar síðustu mánuði leitt til þess að námslánin hafa skerst um allt að 40% eftir þróun gjaldmiðla í viðkomandi löndum. Það er því orðið mjög erfitt fyrir námsmenn erlendis að framfleyta sér og við höfum mörg hver heyrt í þeim og þeir bera sig ekki vel.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hún sé reiðubúin að gera breytingar í þá átt að bæta kjör þeirra sem stunda nám erlendis því 40% fall á íslensku krónunni hefur haft sitt að segja fyrir þann hóp. Fyrir svo utan það væri gaman að heyra hvað hæstv. ráðherra finnst um það fyrirkomulag að námslán séu greidd eftir á. Við getum tekið sem dæmi milljón króna námslán, þá er námsmaður að borga 16–25% yfirdrátt sem þýðir hátt í 200.000 kr. á ári sem viðkomandi greiðir í dráttarvexti til viðkomandi bankastofnunar. Gæti það verið mögulegt að greiða lánin út með reglulegu millibili en ekki í einni greiðslu þegar viðkomandi hefur sýnt fram á viðunandi námsárangur?

Að þessu sögðu er ljóst að með veikingu krónunnar og hás vaxtastigs hér á landi þá er staða þeirra sem eru í námi erlendis ekki öfundsverð og ef við viljum sem þjóð hvetja ungt fólk til að leita sér mennta á erlendri grundu þá þurfum við að gera það fýsilegri kost en það er í dag. Við höfum heyrt í mjög mörgum námsmönnum og samtökum þeirra sem hafa kallað eftir því að breytingar verði gerðar þeim til hagsbóta og því er eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort ríkisstjórnin hafi í hyggju nú þegar nýtt fjárlagafrumvarp verður lagt fram að bæta kjör námsmanna rétt eins og þeir hafa óskað, því það er óumdeilt að kjör námsmanna erlendis hafa versnað allsvakalega á síðustu mánuðum.