135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

námslán námsmanna erlendis.

658. mál
[14:54]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil nota þetta tækifæri og ítreka það sem ég hef áður sagt úr þessum ræðustól að það er gæfa okkar Íslendinga að við eigum mjög sterkan og öflugan lánasjóð og erlendar úttektarstofnanir hafa margoft ítrekað að Lánasjóður ísl. námsmanna er afar vel rekinn. Um tíma, á sársaukafullan hátt má segja, þurfti að taka á málefnum LÍN, á árunum 1991–1995, en síðan þá hefur rekstur sjóðsins verið í jafnvægi og vel það og þó að hv. þingmaður sé ungur að árum þá munum við þetta öll. Okkur hefur auðnast m.a. á undanförnum árum að lækka endurgreiðsluhlutfallið. Við höfum afnumið tekjutengingu maka. Við höfum verið að gera frítekjuhlutfallið hagstæðara en áður hefur verið þannig að okkur hefur auðnast að reka LÍN skynsamlega. Við getum því með mjög traustum og dyggilegum hætti stutt við okkar námsmenn hvort sem þeir eru á erlendri grundu eða hér heima og LÍN er tvímælalaust hluti af velgengni okkar og uppgangi á sviði háskólamála sem er óumdeildur.

Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina og vil aðeins útskýra hvernig málið liggur fyrir. Námslán eru að jafnaði reiknuð út frá upphafi í mynt viðkomandi námsláns. Reglurnar sem gilda fyrir skólaárið 2008–2009 gera ráð fyrir að tekjum og styrkjum sé breytt í mynt námsláns miðað við gengi 1. júní 2008. Þegar lánið eða hluti þess kemur síðan til útborgunar er upphæðinni sem greiða á út breytt í íslenskar krónur miðað við daggengið við útborgun. Þannig eru, frú forseti, hugsanleg gengistöp leiðrétt og eiga ekki að koma til skerðingar á lánum til námsmanna erlendis miðað við lánaáætlanir sem liggja fyrir strax í upphafi vetrar.

Sömuleiðis er leitast við að láta upphæð lánanna fylgja verðlagsþróun í því landi sem miðað er við. Dæmi um þetta er að t.d. hækkaði grunnframfærsla námsmanns í Danmörku úr 7.611 dönskum krónum veturinn 2007–2008 í 7.740 danskar krónur veturinn 2008–2009. Þar er því verið að taka tillit til verðlagsbreytinga og verðlagsþróunar í viðkomandi löndum, í þessu tilviki í Danmörku á milli skólaáranna. Miðað er við gengi gjaldmiðla 8. september 2008 og var grunnframfærslan á yfirstandandi skólaári vegna náms í Danmörku 129 þús. íslenskar krónur samanborið við 100.600 kr. íslenskar vegna náms á Íslandi.

Það er því ekki svo, frú forseti, að námslán til námsmanna skerðist erlendis vegna veikingar krónunnar. Hins vegar er það auðvitað svo að þessi lán sem önnur lán þar sem erlend mynt er lögð til grundvallar verða hærri í íslenskum krónum talið þegar gengi krónunnar veiktist. Þetta er í rauninni algerlega í samhengi miðað við það að við erum með íslenska krónu sem sveiflast eins og mönnum er mjög vel kunnugt um. Hún sveiflast upp og hún sveiflast niður og þetta bitnar á námsmönnum alveg eins og það bitnar á öðrum landsmönnum, þegar landsmenn njóta þess að vera með hagstætt gengi þá njóta námsmenn þess líka eins og menn þekkja.