135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

námslán námsmanna erlendis.

658. mál
[15:01]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það var ekkert gert af hálfu LÍN eða ríkissjóðs þegar gengi krónunnar var afar hagstætt fyrir námsmenn erlendis. Það var ekki farið í það að endurheimta eða krefjast endurgreiðslu á ákveðnum hlutum námslána af því að þau voru svo hagstæð og námsmenn erlendis væru að njóta mun betri kjara en námsmenn hér heima. Það var ekki gert. Auðvitað er lykilatriði í þessu að námsmenn okkar búi við góð kjör, helst bestu kjör í heimi og þeir gera það í rauninni í dag. Þess vegna skiptir afar miklu máli að við rekum áfram öflugan lánasjóð sem hafi traustan fjárhagsgrundvöll til þess að koma til móts við ítrekaðar og stærstu óskir námsmannahreyfingarinnar sem er endurgreiðslubyrðin. Í gegnum árin hefur það m.a. verið frítekjuhlutfallið og að hækka framfærsluna. Ég held að það séu lykilatriði sem við eigum að einblína á.

Já, það er einboðið að ríkisstjórnin mun halda áfram að leita leiða til þess að tryggja og treysta grundvöll Lánasjóðs íslenskra námsmanna en það er ekki þannig að við bregðumst við núna nákvæmlega á því gengi sem nú er. Ég tel að það væri ekki rétt. Hins vegar munum við halda áfram að treysta undirstöður lánasjóðskerfis okkar með það í huga að allir námsmenn alls staðar, hvort sem þeir læra heima eða á erlendri grundu geti haldið áfram námi sínu. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er afar mikilvægt að þrátt fyrir að við höfum verið í mikilli sókn hér heima, en nýjustu tölur sýna að fjöldi háskólastúdenta hér heima hefur aukist og það er mjög gott, tel ég engu að síður afar mikilvægt að við höldum áfram þeirri sókn sem hefur verið, umfram önnur lönd, umfram hin Norðurlöndin til að mynda, með íslenska stúdenta á erlendri grund. Það er afar mikilvægt fyrir samfélag okkar því við fáum þessa stúdenta heim. Það er ekki þannig annars staðar.