135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

MS-sjúklingar og lyfið Tysabri.

654. mál
[15:03]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um MS-sjúklinga og lyfið Tysabri. Fyrirspurnin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hefur ráðherra í hyggju að gefa fleiri MS-sjúklingum en þeim sem þegar hafa fengið lyfið Tysabri færi á notkun lyfsins? Ef svo er, hvenær mega sjúklingarnir eiga von á að fá lyfið?“

Eins og allir vita er MS-sjúkdómurinn mjög alvarlegur sjúkdómur. Nú er komið á markaðinn þetta lyf, Tysabri, sem er það besta sem hægt er að gefa sjúklingum samkvæmt mínum upplýsingum. Það stöðvar eða hægir á einkennum sjúkdómsins og jafnvel er hægt að tala um að hann gangi til baka. Lyfið hefur verið í notkun í nokkur ár og það eru að minnsta kosti tvö ár síðan fyrst var rætt um það að gefa sjúklingum það hér á landi en talið er að hér séu um 330 sjúklingar með þennan sjúkdóm og það sem mér hefur verið sagt er að í sjálfu sér mundi þetta lyf ekki henta þeim öllum.

Á haustdögum kom í ljós að það var nokkur tregða að taka lyfið upp hér á landi. Lyfið kom þó til Íslands í upphafi árs og gefin voru fyrirheit um að 50 einstaklingar fengju lyfið nú í ár. Nú er kominn septembermánuður og aðeins um helmingur þess hóps hefur fengið lyfið sem hlýtur að gera það að verkum að það er mikilvægt að heyra frá hæstv. ráðherra hvernig hann sér framtíðina fyrir sér bæði hvað varðar þetta ár og svo framhaldið.

Ekki þarf að hafa mörg orð um það hversu erfitt það er fyrir fólk með þennan sjúkdóm að bíða í óvissunni. Spurningin sem það veltir fyrir sér er hvort það fái lyfið og hvenær það fái þá lyfið og svo framvegis. Þetta er mál sem hefur verið tekið upp á sviði samtaka MS-sjúklinga á Norðurlöndum og þar hefur verið ályktað um málið. Þess vegna væri líka forvitnilegt að vita hvort þetta hefði verið tekið upp af hálfu heilbrigðisráðherra Norðurlanda þegar þeir hittast, sem ég tel að sé reglulega, að minnsta kosti var það þannig. En aðalspurningin er þessi: Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að þetta muni þróast hvað það varðar að geta gefið sjúklingum færi á að nota þetta mikilvæga lyf?