135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

MS-sjúklingar og lyfið Tysabri.

654. mál
[15:06]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir að beina til mín þessari fyrirspurn. Ég geri mig hins vegar tilneyddan til að gera athugasemdir við orðalag í spurningu hv. þingmanns. Svo því sé til haga haldið þá er það ekki ráðherra heilbrigðismála sem tekur ákvörðun um lyfjagjöf á Landspítalanum. Ákvörðun um það taka læknar og ákvörðun um að gefa lyf sem ekki er gagnrýnt byggist á þeirra bestu faglegu þekkingu sem til er í landinu.

Íslenskir heilbrigðisráðherrar hafa í gegnum tíðina horft meira til þessara faglegu ráðlegginga en kostnaðar þegar leitað hefur verið eftir fjárveitingum vegna nýrra dýrra lyfja. En rökin verða að vera faglega skotheld og þekkingin gagnreynd.

Lyfið Tysabri er mjög nýlegt lyf. Það er því ekki alveg fullreynt en lofar góðu. Lyfinu var veitt markaðsleyfi hér á landi um 2006 og er það ætlað til að nota sem einlyfja meðferð til að breyta sjúkdómsferli hjá skilgreindum sjúklingahópum með afar virka gerð af MS-sjúkdómi með köstum og bata á milli. Um er að ræða mjög vandmeðfarna lyfjameðferð og strangar reglur gilda um notkun þess en lyfið hentar ekki öllum MS-sjúklingum.

Að fengnu mati sérfræðinga Landspítalans var ákveðið að gefa um 50 sjúklingum hér á landi lyfið á árinu 2008 en það er hærra hlutfall en vitað er um annars staðar. Samsvarandi fjöldi er 8–13 manns í Danmörku og Svíþjóð að teknu tilliti til fólksfjölda. Íslendingar eru því að vissu leyti í fararbroddi á þessu sviði. Notkun lyfsins hófst á Landspítalanum þann 16. janúar síðastliðinn og hafa nú um 25 MS-sjúklingar fengið þessa lyfjameðferð.

Alvarlegar aukaverkanir sem fréttir hafa borist af nýlega undirstrika mikilvægi þess að fara varlega í notkun lyfsins. Lyfjastofnun Evrópu hafa nýlega borist tvær tilkynningar um alvarlegar aukaverkanir af völdum Tysabri og fylgist náið með lyfinu. Aukaverkunin felst í lífshættulegri bólgu í heilanum sem hefur svipuð einkenni og MS-kast. Sérfræðinganefnd stofnunarinnar lítur þessi tilvik alvarlegum augum og hefur beðið Elan, markaðsleyfishafa Tysabri, að leggja fram öll gögn um lyfið. Á þeim grundvelli mun stofnunin taka ákvörðun um framhaldið. Þessi aukaverkun hefur ekki komið upp á Íslandi sem betur fer. Hins vegar hefur komið upp önnur alvarleg aukaverkun hér á landi þar sem sjúklingur fór í lost þegar honum var gefið lyfið en þar sem þetta gerðist á sjúkrahúsi var brugðist mjög skjótt við og sjúklingurinn beið engan skaða af. Við þekkjum þessar alvarlegu aukaverkanir og einnig þær varúðarráðstafanir sem ráðlagðar eru í tengslum við notkun lyfsins og í ljósi þess eru vinnureglur Landspítalans mjög eðlilegar. Allar áætlanir Landspítalans miðast við að á árinu fái 50 sjúklingar lyfið en það er að sjálfsögðu háð því að Lyfjastofnun Evrópu taki lyfið ekki af markaðnum. Ég treysti þeim sérfræðingum Landspítalans sem stjórnað hafa þessari lyfjagjöf fyllilega til að fylgjast með og meta ávinning og hættu af lyfjagjöfinni og hvort eða hvenær tilefni er til að fjölga þeim sjúklingum sem fá meðferð.

Virðulegi forseti. Ég vona að þessar upplýsingar svari fyrirspurn hv. þingmanns.