135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

MS-sjúklingar og lyfið Tysabri.

654. mál
[15:11]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er gott að heyra hversu hratt og vel er tekið á málinu í samanburði við þau lönd sem við berum okkur gjarnan saman við, Svíþjóð og Danmörku. En það er mjög eðlilegt og skiljanlegt að MS-sjúklingar hafi miklar væntingar til þessa nýja lyfs. Ég held að það sé ákaflega brýnt að þeir 50 einstaklingar sem fyrirheit voru gefin um á þessu ári fái tryggilega að komast inn í meðferðina og það muni ekki stranda á húsnæðismálum eða mannahaldi eða öðru slíku hjá spítalanum og að ráðherra veiti spítalanum það eðlilega aðhald sem þarf að vera til að það geti gengið og síðan í framhaldi af þessum 50 sjúklingum þá geti fleiri fengið að njóta lyfsins ef það heldur áfram að lofa svo góðu því sannarlega eru það mikil tíðindi fyrir þá sem stríða við jafnalvarlega hrörnunarsjúkdóma og hér er um að ræða ef það er von (Forseti hringir.) til þess að stöðva sjúkdóminn eða hægja verulega á honum.