135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

MS-sjúklingar og lyfið Tysabri.

654. mál
[15:14]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka aftur bæði fyrirspyrjanda og sömuleiðis þeim þingmönnum sem hér töluðu. Eins og kom fram hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni þá þykir öllum það sárt að horfa upp á fólk í þeirri aðstöðu að þurfa að nota þetta lyf. Það er ekki sama hvernig farið er með orðræðuna í þinginu. Þessar ræður hv. þingmanna voru þeim til sóma.

Eins og fram kom þá höfum við verið mjög framarlega, ef þannig má að orði komast, þegar kemur að því að veita þetta lyf. Eins og ég nefndi þá vitum við ekki til þess að önnur lönd veiti fleirum hlutfallslega þetta lyf og kom það meðal annars fram á alþjóðlegri ráðstefnu sem MS-samtökin héldu hér í haust og sem ég ávarpaði. Við verðum alltaf að vinna þessa hluti út frá faglegum forsendum og ég veit að þeir ráðherrar sem voru á undan mér gerðu það og örugglega þeir ráðherrar sem á eftir mér koma. Þess vegna verðum við að treysta þeim sérfræðingum sem um þessi mál fjalla.

Það er nokkuð síðan að fjölmiðlar fluttu fréttir af þessum aukaverkunum. Við skulum vona að það fáist góð niðurstaða í það. Við verðum að hafa trú líka á þróuninni og tækninni, að í kjölfarið komi ávallt betri lyf og tæki til þess að eiga við sjúkdóma eins og þessa. Ég gerði mitt besta í að upplýsa þingmenn um hver staðan í málinu er núna og mun að sjálfsögðu gera það í framhaldinu ef þess er óskað en ekkert bendir til annars en að þessir 50 fái lyfið í ár.