135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

staða landbúnaðarins og matvælaframleiðslu.

[15:42]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það hefur ríkt bjartsýni og trú og mikil uppbygging í íslenskum sveitum á síðustu árum og fjöldi nýrra verkefna hafa fallið bændum og sveitamönnum í skaut. Það hefur því verið gróska og gróandi þjóðlíf í sveitunum víðast hvar. Tíðindin í þessari umræðu eru þau að hæstv. landbúnaðarráðherra segir: Ekkert atvinnulíf lifir þessa vexti af. Hann er fyrsti ráðherrann sem tekur undir með okkur framsóknarmönnum sem höfum haldið þessu fram um langa hríð.

Íslenskir bændur eru í svipaðri stöðu og annar rekstur og skuldug heimili á Íslandi. Allt hefur farið í handaskolum hjá ríkisstjórninni á rúmu ári. Gengið er fallið um 40% á þessu ári. Hér ríkir óðaverðbólga á ný sem hefur ekki sést í 20 ár. Vextirnir reyna mjög á fólk og fyrirtæki og það viðurkennir hæstv. landbúnaðarráðherra. Þetta eru vextir sem ekki ganga upp í neinu einasta þjóðfélagi, enginn atvinnurekstur, enginn einstaklingur ber það til lengdar. Þess vegna höfum við framsóknarmenn sagt: Til þess að hjól atvinnulífsins fari að snúast á ný og fjármálakreppunni ljúki verða menn að ganga til vaxtalækkunar.

Aðföngin hafa hækkað til bændanna og reyna á afkomu þeirra og síðan á matvælaverðið til neytendanna. Hér er því mikill vandi á ferðinni. Áburðurinn, fóðrið, olían og vextirnir er allt farið að reyna mjög á og ekki síst á fólkið sem hefur verið að byggja upp hin stóru bú á síðustu árum. Ég vil bara minna á að allar þjóðir eru nú við þessar aðstæður að hugsa um sína atvinnuvegi, sinn landbúnað og við verðum að gera það líka, Íslendingar. Ísland er gott landbúnaðarland og á frábæra bændur, einstaka búfjárstofna og hreina náttúru. Það er skylda okkar allra að taka höndum saman um að verja landbúnaðinn en stærsta verkefnið er að hugsa heildstætt um efnahagsmál fyrirtækja og fólks á Íslandi. (Forseti hringir.) Það hefur ríkisstjórnin ekki gert. Hins vegar lofaði hæstv. landbúnaðarráðherra því hér og minntist á vextina sem allt eru að drepa. Hann hefur þó kveikt ljós í sínum kolli.