135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

staða landbúnaðarins og matvælaframleiðslu.

[15:47]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Olíuverð, áburðarverð og fjármagnskostnaður hefur aukist gríðarlega mikið upp á síðkastið og hefur það bitnað mjög mikið á bændastéttinni. Nýtt frumvarp um innflutning á fersku kjöti frá ESB-löndunum kemur til með að hafa verulegar afleiðingar fyrir bændastéttina.

Það er auðvitað ýmislegt mjög erfitt sem bændur þurfa að kljást við þó að gleðifréttir heyrist líka og bændur hasli sér völl í ýmsum aukabúgreinum. Garðyrkjubændur eru í góðum málum, við erum farin að framleiða korn, þ.e. bændurnir, ferðaþjónusta er komin út í sveitirnar að miklu leyti og bændur eru farnir að stunda ýmsar aukabúgreinar sem í sveitunum. Auðvitað getur heimaslátrun hjálpað til, skapað atvinnu og skapað meiri virðisauka. Þetta eru allt hlutir sem eru í rólegheitunum að ryðja sér braut í íslenskum landbúnaði, en til framtíðar litið þarf kannski að hugsa þetta öðruvísi en verið hefur. Við þurfum að hugsa þetta meira út frá markaðslögmálunum. Ég hefði viljað sjá í framtíðinni í íslenskum landbúnaði og reyndar í sjávarútvegi og annars staðar í samfélaginu að við notuðum markaðslögmálið meira.

Beingreiðslur og framleiðslustyrki á að leggja af og ég tel að taka eigi upp búsetustyrki beint til hefðbundinna bænda sem eru í venjulegum búrekstri, í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu sérstaklega, og að við eigum að nýta okkur (Forseti hringir.) þá möguleika í framtíðinni.