135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

staða landbúnaðarins og matvælaframleiðslu.

[15:58]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er náttúrlega engan veginn hægt að ræða vanda landbúnaðarins hér og koma með góða rökræðu í stuttri utandagskrárumræðu. Vandamálið er mikið og vissulega þarf að horfa til margra átta.

Ég held hins vegar að við bætum ekki stöðu landbúnaðarins með því að rjúfa þá samninga sem við höfum gert við bændastéttina um beingreiðslur sem beinlínis koma neytendum til góða þegar varan kemur á markaðinn þó að vissulega virðist kjötmarkaðurinn hér á landi, sérstaklega í smásölunni, ekki færa bændum eðlilegt verð.

Hæstv. ráðherra sagði að enginn gæti búið við núverandi fjármagnskostnað. Ég tek alveg undir það með hæstv. ráðherra. Það voru hins vegar engar tillögur hjá ráðherra um hvernig ætti að taka á því. Bændur hafa talað um hvort hægt væri að fá betri fyrirgreiðslur, m.a. hjá Byggðastofnun, varðandi afurðalán til að lækka af þeim fjármagnskostnað. Við sjáum að áburðarverð hefur rokið upp, það vita allir um olíukostnaðinn og ríkisstjórnin hefur ekki tekið á því máli með neinum hætti. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki verið með neinar tillögur um það hvernig eigi að bregðast við vandanum og þess vegna er algjörlega nauðsynlegt að menn komi ekki bara hér í pontu eins og hæstv. ráðherra og segi að enginn geti búið við núverandi ástand. Það hlutu menn að vera búnir að sjá fyrir nokkuð löngu síðan að gæti ekki gengið, það á við í atvinnulífinu okkar og það á líka við varðandi skuldsettar fjölskyldur.

Ungir bændur sem hafa verið að hefja búskap eru skuldsettir. Þó að menn séu vel menntaðir og duglegir og vilji allt til gera til að vera í landbúnaðinum er þeim það ekki kleift við núverandi aðstæður.