135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

staða landbúnaðarins og matvælaframleiðslu.

[16:03]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa ágætu umræðu sem mér finnst hafa verið málefnaleg og uppbyggileg og fyrst og fremst lýsa því að hér á Alþingi ríki mjög jákvæður hugur í garð íslensks landbúnaðar. Því er oft haldið fram að það sé alls ekki þannig, að meðal almennings séu menn mjög krítískir og gagnrýnir á landbúnaðarmálin en ég held að umræðan hér í dag, sem í tóku þátt fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi, sýni að það er breið samstaða manna um að standa vel vörð um landbúnaðinn og við skulum þá bara einfaldlega viðurkenna að við stöndum núna frammi fyrir óvenjulegum vanda sem stafar af breyttum ytri aðstæðum og það eru ekkert mjög auðveld úrræði til þess að fást við þetta.

Ég lagði fram ýmsar hugmyndir og tillögur og viðbrögð sem við höfum ýmist verið að íhuga eða viljum hrinda í framkvæmd og ég fagna þeim góðu viðtökum sem þessi mál fengu nema frá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur sem virðist hafa lokað eyrunum þegar ég hélt ræðu mína og lagði fram tillögur mínar um það hvernig við vildum bregðast við vandanum.

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að íslenskur landbúnaður hefur verið að þróast á margan hátt með mjög jákvæðum hætti. Það er rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að ýmsar greinar landbúnaðarins eru skuldugar og ástæðan er auðvitað sú að greinarnar hafa verið að taka þátt í því, hafa verið að fjárfesta heilmikið og það hefur haft í för með sér fjármagnskostnað sem núna verður sligandi vegna þess að vextirnir eru óvenjulega háir. Við sjáum hins vegar fram á að það eru forsendur til þess að þessir vextir geti lækkað á næstu mánuðum og missirum.

Þetta hefur orðið til þess að það hefur orðið afkastaaukning, það hefur orðið samþjöppun í greininni, búin hafa orðið stærri og sterkari og það sem mér finnst mestu máli varða varðandi landbúnaðinn þegar við horfum á hann sem heila atvinnugrein, er að atvinnutækifæri í landbúnaði eru fjölþættari og fjölbreyttari nú en nokkru sinni áður. Þrátt fyrir að það hafi slegið í bakseglin, þrátt fyrir að við stöndum frammi fyrir alvarlegum vanda sem enginn skyldi gera lítið úr er staðan engu að síður sú að við erum með fjölbreyttari, fjölþættari landbúnað og þess vegna fleiri atvinnutækifæri á þessum sviðum — (Forseti hringir.) spennandi fyrir ungt fólk — meira en nokkru sinni áður og við eigum líka að reyna að leggja áherslu á það og hvetja landbúnaðinn áfram á þessari braut.