135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

jarðgöng og vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum.

659. mál
[16:16]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er verið að ræða afar áhugavert mál og mikil nauðsyn er á að við áttum okkur á því hvernig við ætlum að halda áfram eftir að við erum búnir að gera Dýrafjarðargöngin sem stytta þessa leið verulega fyrir utan það að verða heilsársvegur á láglendi. Það er akkúrat það sem þarf að tala um í þessu máli, það að reyna að tryggja sem allra best heilsársveg á láglendi milli þessara byggðakjarna á norðanverðum og sunnanverðum fjörðunum.

Þegar fyrir liggur þetta nýja mat upp á 4,1 milljarð við að fara yfir Dynjandisheiði vil ég endilega beina þeirri hugsun til hæstv. samgönguráðherra að við skoðum vandlega hvort ekki megi fara leið sem liggur með sjónum að mestu leyti og það þótt við þyrftum að gera eina holu í viðbót til að komast þá leið en vera þá á láglendisvegi milli byggðarlaga. (Forseti hringir.)

Ég vil svo lýsa ánægju minni með það að á þessu fjögurra ára tímabili ætlum við að gera ein fern jarðgöng, það eru í raun og veru (Forseti hringir.) tímamót í samgöngusögu Íslands.