135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

störf þingsins.

[10:46]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við Íslendingar erum svo lánsöm að búa við sterkan Íbúðalánasjóð og hafa margir stjórnmálaflokkar staðið dyggan vörð um starfsemi þess sjóðs enda getum við rétt ímyndað okkur hver staðan væri á húsnæðismarkaðnum í dag ef Íbúðalánasjóðs nyti ekki við. Hann er í raun eini aðilinn á húsnæðismarkaðnum í dag, hann er rekinn án arðsemissjónarmiða og býður langlægstu vextina.

Við framsóknarmenn viljum áfram standa vörð um starfsemi sjóðsins rétt eins og hingað til og til þess er ég þá kominn hingað upp til að fá úr því skorið hver stefna ríkisstjórnarinnar er í málefnum Íbúðalánasjóðs.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa haldið því fram í umræðum síðustu vikna að breyta eigi Íbúðalánasjóði í heildsölubanka. Það er ekki bara forsætisráðherra sem hefur talað fyrir því, heldur einnig fjármálaráðherra. Nú bregður svo við að hæstv. viðskiptaráðherra segir á fundi á Selfossi, með leyfi hæstv. forseta, „að það standi ekki til að breyta Íbúðalánasjóði í heildsölubanka og hætta með almenn lán og skilja bara eftir félagslega þáttinn“. Í raun og veru er þetta efnislega nákvæmlega það sama og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hefur sagt, það komi ekki til greina að Íbúðalánasjóður hætti almennum lánveitingum.

Ég held að það sé eðlilegt að formaður félags- og tryggingamálanefndar Alþingis reyni nú að útskýra hver stefna ríkisstjórnarinnar er í málefnum Íbúðalánasjóðs þar sem Sjálfstæðisflokkurinn talar til hægri en Samfylkingin til vinstri. Það er með öllu óásættanlegt að ríkisstjórnarflokkarnir skuli tala í kross í svo mikilvægu máli sem húsnæðismálin eru og um leið vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji það koma til greina að það sé hluti af hugsanlegri þjóðarsátt að Íbúðalánasjóður hverfi út af húsnæðismarkaðnum rétt eins og Samtök atvinnulífsins (Forseti hringir.) hafa lagt til.