135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

störf þingsins.

[10:52]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi verður að venjast því að menn hafi ólíkar skoðanir, jafnvel þó að þeir séu komnir í ríkisstjórnarsamstarf, ólíkt því sem oft var áður að menn urðu sama sem einn flokkur og tjáðu sig sem slíkir. Við erum ólíkir flokkar og höfum ólíkar skoðanir á því sem hér er að gerast en eftir sem áður er Íbúðalánasjóður á forræði hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra og það sem ég fór yfir hér áðan er sú stefna sem sá hæstv. ráðherra hefur boðað.

Það kann að vera að það valdi misskilningi þegar menn eru að tala um heildsölubanka eða heildsölulán að Íbúðalánasjóður lánaði bönkunum 30 milljarða til að hjálpa þeim að losa um lánastífluna til þess að endurfjármagna húsnæðislán og minni fjármálastofnanir nýttu sér það. Það er eitt form af heildsölulánveitingum til lánastofnana þannig að ég held að það sé mikilvægt að átta sig á því að það hefur í sjálfu sér verið gert nú þegar til að reyna að koma af stað einhverri hreyfingu á íbúðalánamarkaðinn. Ég held að sá sem hér stendur og þeir sem mynda ríkisstjórn Íslands geri sér fulla grein fyrir því hversu alvarlegt ástandið er á húsnæðismarkaðnum og hversu mikilvægt það er að reyna að ná hreyfingu á markaðinn og muni að sjálfsögðu leita allra ráða til þess að svo geti orðið.

Mig langar aðeins að leiðrétta það sem ég sagði í fyrri lotunni, ég sagði að það væri byggt á úrskurði frá ESA. Það er í rauninni bara bráðabirgðaálit og mikilvægt að halda því til haga. Menn eru enn þá í viðræðum um með hvaða hætti þeir geti komið til móts við þær hugmyndir sem ESA hefur um fyrirkomulag íslenskra íbúðalánamála.

Laust og fast stöndum við saman um það að Íbúðalánasjóður gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki, hefur gert það og mun gera það áfram um fyrirsjáanlega framtíð miðað við ástandið í dag.