135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

störf þingsins.

[10:57]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Mig langar stuttlega að blanda mér inn í þá umræðu sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson hóf hér um Íbúðalánasjóð og þau svör sem komu frá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni varðandi þetta atriði. Það er alveg ljóst að málefni Íbúðalánasjóðs varða hverja einustu fjölskyldu í landinu. Hér er um að ræða afskaplega mikilvægt velferðarmál, það að koma sér þaki yfir höfuðið er hluti af velferðarkerfi okkar eins og við höfum viljað byggja það upp undanfarin ár og áratugi og það er auðvitað afar brýnt að við höldum áfram á þeirri leið.

Nú hefur það komið fram að kröfur hafa verið gerðar í bráðabirgðaáliti frá Eftirlitsstofnun EFTA um að okkur sé skylt að breyta fyrirkomulagi íbúðalána og greina á milli svokallaðra félagslegra lána og almennra lána. Nú vill þannig til að ég hef í tvígang spurt Eftirlitsstofnun EFTA um þetta álit sérstaklega og hvað þarna liggi að baki á fundum EFTA-nefndarinnar sem ég á sæti í. Ég fullyrði hér að í þeim svörum sem þar hafa komið frá forsvarsmönnum ESA er ekkert að finna sem gerir kröfu um að við skiljum á milli með þeim hætti sem hér er látið í umræðunni. Ég kalla eftir því að fram fari einhver umræða um það og að ríkisstjórnin og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra komi til þings og geri okkur grein fyrir því hvað ráðherrann er raunverulega að hugsa í þessu efni. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að við skilgreinum öll lán Íbúðalánasjóðs sem félagsleg gagnvart ESA ef það er það sem málið snýst um. Það er ekkert að mínu viti í þessu áliti sem gerir kröfu um að við breytum fyrirkomulagi. Það þarf að búa til skilgreiningar en þær mega ná til allra íbúðalána (Forseti hringir.) eins og ég hef skilið málið.