135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

fundarstjórn.

[11:04]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Við þessa umræðu um störf þingsins var breytt út af þeirri venju sem var í raun og veru mörkuð í kjölfar nýju þingskapalaganna sem samþykkt voru hér fyrr á þessu þingi þannig að forseti ákvað í upphafi umræðunnar að taka inn fjögur mál undir þessum lið um störf þingsins. Öðrum þingmönnum gafst ekki mjög mikið ráðrúm til þess að komast inn í umræðuna nema alveg í blálokin og ég vil þess vegna spyrja hæstv. forseta hvort þetta sé eitthvert vinnulag sem hafi verið rætt á vettvangi forsætisnefndar eða við formenn þingflokka eða hvort þetta sé vinnulag sem forseti hyggist taka upp varðandi þennan lið. Ég held að ef meiningin sé að gera það þurfi í raun og veru að endurskoða hugmyndina á bak við þennan lið um störf þingsins alveg frá grunni.