135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[11:08]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er með mikilli ánægju að ég fylgi fyrstu skriflegu skýrslu umhverfisráðherra til Alþingis úr hlaði. Mér þykir tímabært og við hæfi að efna til almennrar umræðu um þennan mikilvæga málaflokk á Alþingi Íslendinga. Eins og gefur að skilja geymir skýrslan ekki tæmandi upptalningu á viðfangsefnum umhverfisráðuneytisins og stofnana þess en hún gefur þingmönnum og almenningi vonandi betri innsýn í það viðamikla og mikilvæga starf sem þar er unnið.

Umhverfismál eru ekki lengur jaðarmál í stefnumörkun stjórnvalda og almennri umræðu. Flest verkefni á vegum umhverfisráðuneytisins, bæði þau sem eru talin í þessari skýrslu og önnur, tengjast efnahags- og atvinnulífi, heilsu og lífsgæðum og stefnu Íslands í samskiptum við önnur ríki. Enn fremur hafa umhverfisþættir fengið aukið vægi í atvinnu- og efnahagsmálum og á verksviðum flestra ráðuneyta. Þetta krefst samhæfingar í stefnumótun innan Stjórnarráðsins og uppbyggingar öflugs þekkingargrunns um náttúru og umhverfi sem auðveldar faglega umræðu og ákvarðanatöku.

Ekki er lengur litið á náttúruvernd annars vegar og efnahags- og samfélagsþróun hins vegar sem andstæða póla. Í hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar er gert ráð fyrir að þróun samfélagsins og vernd náttúrugæða verði að haldast í hendur. Segja má að ríki heims hafi orðið ásátt um að starfa eftir þeirri hugmyndafræði frá og með Ríó-ráðstefnunni 1992 og byggjast alþjóðasamningar á sviði umhverfismála og auðlindanýtingar á þessari hugsun.

Þótt almenn sátt ríki um að vinna á grunni sjálfbærrar þróunar fer því auðvitað fjarri að það hugtak rúmi ekki skiptar skoðanir um hvernig standa skuli að uppbyggingu samfélagsins og vernd umhverfisins. Á síðustu árum hefur oft verið deilt harkalega um ýmsar framkvæmdir í íslensku samfélagi og áhrif þeirra á náttúru og umhverfi. Það mun seint ríkja fullkomin sátt um einstakar framkvæmdir en það er hægt að treysta faglegan grunn fyrir ákvarðanatöku svo að hægt sé að meta heildaráhrif ákvarðana á hina þrjá þætti sjálfbærrar þróunar: umhverfið, efnahaginn og félagslega velferð.

Þannig byggist starf loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna á grunni vísindanefndar sem hefur það hlutverk að taka saman hina bestu vísindalegu þekkingu um orsakir og afleiðingar loftslagsbreytinga af mannavöldum og möguleika til að bregðast við á skilvirkan og hagkvæman hátt. Ísland hefur lagt til á alþjóðavettvangi að svipuð vinna fari fram varðandi umhverfi hafsins þar sem þekking á vistkerfinu og áhrifum mengunar og nýtingar er um margt brotakennd og ófullkomin.

Hér heima þarf að efla rannsóknir og vöktun á íslenskri náttúru og ljúka grunnkortlagningu hennar til að skapa betri grundvöll fyrir ákvarðanatöku sem getur haft afleiðingar til langrar framtíðar. Rétt er einnig að ítreka mikilvægi rammaáætlunar um nýtingu og vernd náttúrusvæða þar sem reynt er að meta virkjanakosti á faglegan hátt, m.a. út frá verndargildi náttúrunnar. Mat á umhverfisáhrifum er mikilvægt tæki til að draga fram allar nauðsynlegar upplýsingar um áhrif framkvæmda og áætlana, ekki síst þegar um stór áform er að ræða.

Hér á landi hefur verið mikil og hröð uppbygging á mörgum sviðum á undanförnum árum, m.a. á sviði orkunýtingar og þungaiðnaðar sem hefur haft mikil áhrif á umhverfi og samfélag. Núverandi efnahagslægð er að hluta til afleiðing af ofþenslu á liðnum árum, auk samdráttar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og hækkana á olíu og matvöru eins og kunnugt er. Raddir heyrast um að við slíkt ástand þurfi að slaka á kröfum um umhverfisvernd og góða grundun ákvarðana um framkvæmdir.

Þvert á móti má færa fyrir því rök að aldrei hafi verið eins nauðsynlegt að meta gaumgæfilega allar líklegar afleiðingar stórra ákvarðana eins og nú. Ísland býr yfir miklum og fjölbreyttum möguleikum til þess að byggja áfram upp blómlegt samfélag án þess að fórna sérstæðum náttúruperlum og víðernum sem vart er lengur að finna í öðrum ríkjum í vestanverðri Evrópu. Íslendingum er í lófa lagið að vinna að uppbyggingu atvinnulífs og velferðarþjónustu samhliða því að efla náttúruvernd, endurheimta gróður og jarðveg, vernda fiskstofna og standa við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum.

Íslendingar munu halda áfram að nýta orkulindir sínar og annan náttúruauð en það þarf að gera af virðingu fyrir náttúrunni og fyrirhyggju en ekki nauðhyggju. Ísland trónir nú í efsta sæti á lista yfir þau ríki þar sem mest velsæld ríkir, samkvæmt mælingu Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Ef við höfum ekki efni á að meta áhrif framkvæmda og stórra ákvarðana vel og gera umhverfisvernd hátt undir höfði er varla mikil von til þess að aðrir leyfi sér að reyna að vinna af heilum hug að sjálfbærri þróun.

Hæstv. forseti. Á einum mannsaldri hefur orðið grundvallarbreyting á afstöðu landsmanna til umhverfis- og náttúruverndar. Samt eru Íslendingar enn eftirbátar grannþjóða sinna á ýmsum sviðum, svo sem endurvinnslu heimilissorps svo að eitt dæmi sé tekið. Spyrja má hvað ráði því að flest sveitarfélög á Íslandi bjóði íbúum sínum og útsvarsgreiðendum upp á að niðurgreiða skussana þegar kemur að endurvinnslu og -nýtingu heimilissorps? Hvers vegna kostar meira að fá sér græna tunnu, eða bláa sums staðar, en það kostar að henda öllu sínu drasli í sömu svörtu ruslatunnuna? Þessu dæmi þarf augljóslega að snúa við og setja það upp í anda mengunarbótareglunnar svo að það borgi sig fyrir almenning að flokka sorpið og stuðla að endurvinnslu.

Fimm ár eru síðan fyrsta heildstæða náttúruverndaráætlunin fyrir tímabilið 2004–2008 var samþykkt hér á hinu háa Alþingi. Í henni var m.a. ályktað um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og friðlýsingu 14 svæða sem flest voru valin með tilliti til verndargildis fyrir fuglategundir. Eins og þingheimi er kunnugt um hefur friðlýsing svæðanna gengið mun hægar en vonir stóðu til. Af því má draga nokkurn lærdóm, m.a. þann að handahófskennt val svæða til friðlýsingar án tillits til eignarhalds eða afstöðu viðkomandi sveitarfélaga er ekki fallið til árangurs. Friðlýsingarferlið er samvinnuverkefni ríkis, sveitarfélaga og landeigenda, þar sem það á við. Þá staðreynd þarf að hafa að leiðarljósi við gerð náttúruverndaráætlunar, framkvæmd hennar og eftirfylgni.

Í haust mun ég flytja nýja tillögu til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun fyrir árin 2009–2013 á Alþingi. Í ljósi reynslunnar mun þar gæta nýrra áherslna. Ég hef ákveðið að hefja endurskoðun náttúruverndarlaga og þá er hafin endurskoðun dýraverndarlaga sem hefur staðið síðan í vetur. Það er einboðið að í náttúruverndarlögum þarf að treysta verndarákvæði og almannarétt.

Þá má einnig víkja að því stóra verkefni sem liggur fyrir og er í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þar þarf vissulega að koma inn ákvæðum um umhverfisrétt og auðlindavernd.

Forseti. Undirbúningur og stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs 7. júní sl. gekk vonum framar og hefur starfsemi stærsta þjóðgarðs í Evrópu farið vel af stað. Þátttaka heimamanna og sveitarfélaga á fjórum rekstrarsvæðum þjóðgarðsins er grundvallarþáttur í skipulagi hans og starfsemi. Stjórnskipulag Vatnajökulsþjóðgarðs er viðamikið og krefst náinnar samvinnu þvert á sveitarfélög og landshluta. Ég er þeirrar skoðunar að stjórn garðsins hafi farist verkefnið afar vel úr hendi og vænti mikils af uppbyggingu þjóðgarðsins um ókomin ár.

Vatnajökulsþjóðgarður er í senn náttúruverndar- og byggðaverkefni. Þegar uppbyggingu gestastofa og grunnþjónustu lýkur árið 2012 mun hann færa þjóðarbúinu a.m.k. 3–4 milljarða króna í viðbótargjaldeyristekjur á ári og er þá ekki tekið tillit til allra hinna afleiddu tekna sem getur orðið um að ræða vegna komu ferðamanna vegna þjóðgarðsins.

Hæstv. forseti. Ísland er nú orðið aðili að viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir þótt það hafi reyndar lítil áhrif eins og stendur þar sem engin íslensk fyrirtæki falla undir tilskipunina. Þetta mun hins vegar breytast í náinni framtíð þar sem fyrirséð er að flug falli undir kerfið árið 2011 og samkvæmt tillögum sem eru til umfjöllunar í Evrópuþinginu mun kerfið verða víkkað út eftir 2012 þannig að m.a. áliðnaður mun falla undir það.

Viðskiptakerfið er kvótakerfi, að mörgu leyti sambærilegt við það sem menn þekkja hér á landi í sjávarútvegi þar sem þak er sett á losun, heimildum til losunar er síðan úthlutað til fyrirtækja eða þær boðnar upp og þessar heimildir ganga síðan kaupum og sölum. Með slíkum viðskiptum vonast menn til þess að markaðurinn sjái um að losun dragist saman á eins hagkvæman hátt og hægt er.

Við Íslendingar þurfum að undirbúa virka þátttöku í viðskiptakerfinu á næstu árum. Fyrir liggur að fyrirtæki á sviði flugrekstrar og stóriðju þurfa að vera tilbúin að greiða fyrir losun gróðurhúsalofttegunda í framtíðinni, en fara þarf vandlega yfir fyrirkomulag þess. Sérstaklega þarf að skoða hvaða áhrif þátttaka í kerfi Evrópusambandsins hefur á stöðu okkar í alþjóðlegu tilliti í framtíðinni þar sem nú er verið að semja um framhald Kyoto-bókunarinnar sem rennur sitt skeið á enda í árslok 2012.

Íslensk stjórnvöld eru nú í viðræðum við Evrópusambandið um hvernig skuldbindingar okkar á alþjóðavettvangi og gagnvart EES-samningnum fari saman og hvernig hagsmunum Íslands sé best borgið í því samhengi. Þar verður haft að leiðarljósi að Ísland er reiðubúið að taka á sig sanngjarnar kröfur í loftslagsmálum, en að tryggt verði að íslensk fyrirtæki njóti sömu hagkvæmni og aðgangs að kolefnismörkuðum og sambærileg fyrirtæki innan Evrópusambandsins.

Það verkefni á sviði umhverfismála sem er í brennidepli á alþjóðavettvangi um þessar mundir er tvímælalaust samningaviðræður um hertar aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum af mannavöldum. Vísindaleg þekking á orsökum og líklegum afleiðingum loftslagsbreytinga hefur styrkst mjög og leitt mönnum fyrir sjónir nauðsyn þess að búa sig vel undir afleiðingar þeirra, en ekki síður að reyna að draga úr hraða og umfangi þeirra með minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda.

Viðræðurnar snúast einkum um að herða aðgerðir eftir árið 2012 þegar skuldbindingar Kyoto-bókunarinnar renna út og stefnt er að því að ná framtíðarsamkomulagi á fundi í Kaupmannahöfn í desember 2009 eins og hv. þingmönnum er vafalaust kunnugt um. Þá er rætt um að ná samkomulagi um tímabilið 2013–2020. Miklu skiptir að fá Bandaríkin, stærsta losanda í heimi, til að taka á sig sambærilegar skuldbindingar og öll önnur þróuð ríki hafa nú tekið á sig, en einnig þarf að taka á losun frá Kína og öðrum ört vaxandi þróunarríkjum.

Öllum ætti að vera ljóst að afleiðingar loftslagsbreytinga munu bitna verst á fátækum þjóðum á þurrkasvæðum, láglendum óshólmum og smáeyjum og krefjast þróunarríki þess að aukið fé sé veitt til að aðstoða þær þjóðir og að þróuð ríki aðstoði við að beina efnahagsuppbyggingu þeirra í grænni farveg með loftslagsvænni tækni.

Ísland þarf að taka tillit til þessara sjónarmiða í þróunarsamvinnu við fátæk ríki og íslensk fyrirtæki á sviði endurnýjanlegrar orku og loftslagsvænnar tækni þurfa að fylgjast grannt með tækifærum sem skapast með vaxandi eftirspurn eftir slíkri þekkingu. Almennt þurfa Íslendingar að búa sig af kostgæfni undir það að takast á við nýjar skuldbindingar á eins hagkvæman hátt og hægt er. Í því skyni er verið að vinna að mati á kostnaði við ólíkar leiðir til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda og sú skýrsla verður birt nú á haustdögum. Ísland hefur einnig lagt fram tillögu um að endurheimt votlendis verði viðurkennd leið til að draga úr losun þar sem vísindarannsóknir benda til þess að mikil losun sé frá framræstum mýrum með lífrænum jarðvegi. Þeirri tillögu hefur verið vel tekið í samningaviðræðum, nú síðast í Accra í Gana.

Hæstv. forseti. Ríkið kaupir vörur og þjónustu fyrir um 100 milljarða kr. á ári hverju og því ljóst að opinber innkaup geta haft mikil áhrif á þróun markaða. Á vegum umhverfis- og fjármálaráðuneytis hafa verið unnin drög að stefnu um vistvæn innkaup ríkisins. Það gefur augaleið að innleiðing stefnu um vistvæn innkaup ráðuneyta, ríkisstofnana og ríkisaðila mun hafa mikil áhrif til þess að draga úr umhverfisáhrifum innkaupa og hvetja til nýsköpunar og virkrar samkeppni á markaði með vistvænar vörur og þjónustu.

Virkir og upplýstir neytendur eru drifkraftur sjálfbærs samfélags. Mikið fræðslu- og kynningarstarf hefur verið unnið í umhverfisráðuneytinu á liðnum missirum. Samstarf við félagasamtök á sviði umhverfismála hefur verið eflt til muna og styrkir til þeirra hækkaðir. Upplýsingariti um loftslagsmál var dreift í skóla í haust og ný skýrsla vísindanefndar um afleiðingar loftslagsbreytinga hér á landi var m.a. kynnt með myndbandi á vefnum sem síðan er boðið skólum til afnota. Þá hefur ráðuneytið tekið þátt í og styrkt fjárhagslega fjölmörg grasrótarverkefni og viðburði.

Líklega er umhverfisstarf og -fræðsla hvergi jafnöflugt og í skólunum 119 um allt land sem taka þátt í grænfánaverkefni Landverndar. Þar vex úr grasi ný kynslóð Íslendinga sem notar aldrei einnota umbúðir, hvorki undir mjólk né vatn, hendir lífrænum úrgangi í safnhauginn og lærir í daglegri umgengni í skólanum sínum að bera virðingu fyrir umhverfinu og náunganum. Ég er þeirrar skoðunar að í skólum landsins sé unnið ómetanlegt umhverfisstarf sem muni skila sér í upplýstum og kröfuhörðum borgurum þegar fram líða stundir.

Hæstv. forseti. Ég vona að með flutningi þessarar skýrslu og umræðum um hana hér á hinu háa Alþingi skapist góðar og málefnalegar umræður um stöðuna í umhverfismálum, almennt um þá stöðu frá ýmsum hliðum. Það er margt efni í skýrslunni sem ekki vannst tími til að fara yfir í stuttri framsöguræðu, en ég geri mér vonir um að allir þættir hennar verði ræddir hér í dag.