135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[11:25]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir skýrsluna og prúða og yfirvegaða ræðu en leyfi mér þó að halda því fram að einu tíðindin séu þau að skýrslan hafi verið gerð. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að á vettvangi umhverfisráðuneytisins er unnið að mörgum brýnum málum. Það er líka rétt að vægi umhverfismála er sífellt að aukast. Það leiðir til þess að stjórnsýsla umhverfismála verður sífellt umfangsmeiri og vegur þyngra. Ég lít svo á að yfirvöld umhverfismála og þjóðin hafi misst af gríðarlega mikilvægu tækifæri á síðasta ári þegar lögum um Stjórnarráð Íslands var breytt. Þá hefðum við átt að nota tækifærið og gera róttækar breytingar á stjórnsýslu umhverfismála en Samfylkingin hafði hvorki uppburði í sér né hugmyndir til að breyta nokkru. Kannski stendur Samfylkingunni á sama um að nýting náttúruauðlinda lands og sjávar sé að stærstum hluta ákveðin í atvinnuvegaráðuneytunum. Iðnaðarráðuneytið ákveður hverjar af orkulindum þjóðarinnar eru nýttar og þar með hvaða náttúruperlum er fórnað á altari stóriðjustefnunnar. Kannski er flestum í Samfylkingunni sama um að rammaáætlun sé á ábyrgð iðnaðarráðherra en ekki umhverfisráðherra. Kannski er flestum sama um að iðnaðarráðherra gefi út leyfi fyrir rannsóknarborholum á viðkvæmum háhitasvæðum sem öll eru náttúruvættir, náttúruperlur á heimsmælikvarða. Okkur vinstri grænum er ekki sama og í sömu stöðu hefðum við beitt okkur fyrir breytingum á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins. Við hefðum tryggt að rannsóknir á náttúruauðlindum lands og sjávar, verndun þeirra og áætlanir um nýtingu, væru á ábyrgð nýs umhverfis- og auðlindaráðuneytis sem stæði jafnfætis fjármálaráðuneytinu í valdapíramída kerfisins. Umhverfisráðuneyti á að vera yfir öðrum ráðuneytum þegar umhverfisþættir allrar opinberrar starfsemi eru annars vegar líkt og félagsmálaráðuneytið á að sjá um að kynjajafnréttis sé gætt alls staðar í stjórnsýslunni, þvert á ráðuneytin.

Umhverfisráðherra á að vera verkstjórinn í endurfæðingu samfélagsins til sjálfbærrar þróunar og hann á að leiða samstarfsráðherra sína inn á sjálfbærar brautir á öllum sviðum. Hann á að vera sterkasti ráðherrann í ríkisstjórninni því hann þarf að standa vörð um lífríki jarðarinnar og viðhald allra auðlindanna. Umhverfisráðherra á að tryggja að vatnið sé hreint, að moldin sé hrein til þess að hreinar afurðir vaxi upp af henni og að loftið sé hreint og ómengað. Hann á að varðveita gersemar náttúrunnar svo komandi kynslóðir allra þjóða geti notið þeirra. Umhverfisráðuneyti á að vera hjartað í Stjórnarráðinu og umhverfisráðherra á að vera ljósmóðir hins sjálfbæra samfélags. Kjósendur héldu að loks settist sannur umhverfisverndarsinni í stól umhverfisráðherra en þá vildi ekki betur til en svo að hún var látin setjast í botnlangann en ekki hjartað, í líffæri sem hægt er að skera af. Þannig er litið á umhverfisráðuneytið í þessari ríkisstjórn og það er mjög miður. Mér finnst þetta skína í gegn þegar skýrsla hæstv. umhverfisráðherra er lesin.

Hæstv. forseti. Það stefnir í að eftir tvö ár, þegar umhverfisráðuneytið verður 20 ára, verði umfang þess og vægi nánast það sama og þegar það var stofnað. Það var stofnað af vanefnum og er enn rekið af vanefnum. Málaflokkar þess og stofnanir hafa langt í frá getað risið til nægilegs sóma enda hefur engum utanríkisráðherra tekist að tryggja þessum málaflokkum þá fjármuni í fjárlögum sem nauðsynlegt er til að þeir geti staðið undir sínum lögbundnu verkefnum.

Sú skýrsla sem hæstv. umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir flutti vekur því miður ekki sérstakar vonir um að mikilla breytinga sé að vænta á næstunni. Einna helst virðist sem ráðherrann átti sig ekki á mikilvægi verkefnisins sem hún hefur undir höndum eða hún finni til þess hvað hún stendur höllum fæti innan ríkisstjórnarinnar.

Hæstv. forseti. Það þarf að koma á framsýnni, nútímalegri stefnu á vettvangi umhverfismála. Hún þarf að endurspegla gerbreytta stöðu og sýn á umhverfismál 21. aldarinnar og gætum að því að 21. öldin er núna.

Skýrslan hefst á dapurlegri upprifjun á því sem stendur í stjórnarsáttmálanum. Sú tugga er orðin svo þvæld að hún er búin að tapa öllu bragði. Þjóðin er búin að missa trú á því sem þar stendur og ástæðan er einföld: Stöðugt er unnið gegn því. Hver trúir því sem stendur þar um að ekki skuli fara með framkvæmdir inn á áður óröskuð svæði? Hæstv. iðnaðarráðherra hóf ferilinn á því að neita að draga til baka leyfi til að bora rannsóknarborholu í Gjástykki, leyfi sem fyrirrennari hans hafði gefið út í leyni tveimur dögum fyrir kosningar. Ótrúverðugleikinn vex með hverri viku. Fyrir nokkrum dögum kom í ljós að hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. umhverfisráðherra eru sammála um að hægt verði að bora allar rannsóknarborholur vegna væntanlegrar orkuöflunar fyrir álver á Bakka á sama tíma og hið umdeilda heildstæða umhverfismat fer fram. Þetta er sýndarmennska sem við verðum því miður vitni að og það liggur við að þjóðinni finnist hún vera höfð að fífli.

Hæstv. ráðherra var ekki búin að sleppa pennanum sem hún notaði til þess að skrifa undir hinn umdeilda úrskurð um sameiginlegt mat tengdra framkvæmda þegar hún var farin að tala úrskurðinn niður, gefa út yfirlýsingar um að hann mundi ekki fresta framkvæmdum við álverið að neinu marki. Hvernig er þetta hægt, hæstv. forseti? Við hæstv. umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir tókum nokkra snerruna við þá umhverfisráðherra sem okkur fundust vera ómögulegir og gengnir orkufrekjunni á vald. Mér sýnist þessi hæstv. umhverfisráðherra vera genginn í þau sömu björg.

Ég hef á tilfinningunni að það standi ekki til að standa við þennan stjórnarsáttmála. Það er jafnaugljóst í mínum huga og það að Samfylkingin ætlaði sér aldrei að standa við loforð um stóriðju meðan unnin væri áætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða, en áætlun samfylkingarfólks hét það til skamms tíma. Þeim var nefnilega ekkert sérstaklega um þessa rammaáætlun gefið. Þeir vildu einhvers konar nýja, öðruvísi áætlun, eitthvað eftir sínu höfði. Til skamms tíma, alveg fram á síðasta vor, vorum það við vinstri græn sem héldum því fram að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma ætti að hafa forgang. Við höfðum náttúruverndaráætlun og hún átti að ákveða náttúruverndarþáttinn, taka frá og skilgreina verndarsvæði og síðan áttu þeir virkjunarkostir sem féllu utan verndaðra svæða að vera efstir á blaði í nýtingaráætluninni. Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem ákveðið var að gera árið 1997, góðir hálsar, og var þá sett á aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar er sem sagt enn í smíðum. Talað er um að ljúka eigi rammaáætlun fyrir árslok 2009 en hæstv. umhverfisráðherra veit vel að það er ógerningur. Þessari áætlun verður ekki hægt að ljúka fyrr en í fyrsta lagi undir vor 2010 því að vísindamenn okkar þurfa allan veturinn til að vinna úr þeim rannsóknum sem gera þarf sumarið 2009. Við skulum horfast í augu við það sem vísindamennirnir segja okkur á fundum. Þessi rammaáætlun verður ekki tilbúin árið 2009. Við værum heppin ef við gætum klárað hana á Alþingi Íslendinga vorið 2010 en eins og málum er háttað verður það að öllum líkindum ekki fyrr en á þinginu 2010–2011.

Hæstv. forseti. Allt þetta á að segja upphátt. Nefnd var náttúruverndaráætlun. Ég spyr: Hvað er að frétta af þessum 14 svæðum á náttúruverndaráætluninni sem rennur út á þessu ári? Við eigum ekki von á því að hæstv. umhverfisráðherra mæli fyrir friðlýsingu 11 eða 12 svæða í haust. Ætli við getum ekki talist heppin ef þau verða tvö? Er þetta til marks um að umhverfisvernd og náttúruvernd hafi verið sett í forgang? Nei, sannarlega ekki í þessari ríkisstjórn.

Á þessum síðustu og verstu tímum er erfitt að standa í lappirnar gagnvart stórkarlalegri framkvæmdagleði verktaka og byggingarfyrirtækja. Við erum enn að kljást við gríðarlega ásókn orkufyrirtækja í uppbyggingu virkjana, jafnt í vatnsafli sem jarðvarma. Menn sjást ekki fyrir og allt er heimilað, engar bremsur halda, ágeng nýting jarðvarma á Hellisheiði er samþykkt og virkjanir reistar. Fólk er varla búið að snúa sér við og rétt búið að læra að segja brennisteinsvetni þegar við fáum fréttir af því að brennisteinsvetnið sé búið að drepa mosa í kílómetravís uppi á Hellisheiði. Hraungambrinn er dauður á (Gripið fram í.) kílómetra löngum kafla af því að það var farið í ágenga nýtingu og ekki gætt að því að hreinsa mengunarefnin frá jarðvarmanum sem upp kemur. (Gripið fram í.) Besta fáanlega tækni var ekki notuð. Við högum okkur skammarlega (Gripið fram í.) gagnvart umhverfinu á hverjum einasta degi í þessum efnum. Fyrir örfáum dögum kom plöntuvistfræðingur fram og sagði okkur þessi hörmulegu tíðindi .

Hvað er brennisteinsvetni? Það er litlaus, eitruð gastegund sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sagt að þurfi að takmarka í andrúmsloftinu til að vernda almenning fyrir skaðlegum langtíma áhrifum þess. (Gripið fram í.) Hún kemur upp með jarðvarmanum og hvernig stöndum við okkur í að takmarka hana? Ég er ekki viss um að þetta fólk sem hér gjammar fram í viti að í íslenskum reglugerðum stendur ekki eitt einasta orð um það hver leyfileg heilsuverndarmörk brennisteinsvetnis séu. (Gripið fram í.) Hvernig ætlar hæstv. umhverfisráðherra að breyta því? Það verður að ráðast í breytingar í þessum efnum en í skýrslunni hennar stendur ekki orð um brennisteinsvetni.

Hæstv. forseti. Ég sé að það gengur ört á tíma minn og ég get ekki annað en hlaupið yfir stóran kafla í ræðu minni til að komast að loftslagsmálunum. Hvernig gengur okkur þar? Við erum eina þjóðin af Annex I ríkjunum í Kyoto sem fékk leyfi til að auka losunina um tíu prósent. Þar að auki fengum við sérstakt undanþáguákvæði, íslenska ákvæðið svokallaða. Við vitum að skuldbindingar loftslagssamningsins eru að draga úr losun. Hvernig gengur okkur? Hörmulega. Við höfðum aukið losun gróðurhúsalofttegunda um 25% frá viðmiðunarárinu 1990 þegar síðustu tölur voru gefnar út, ég held það hafi verið 2006. (Gripið fram í.) Hv. þingmenn og hæstv. ráðherra, líka hv. þm. Pétur Blöndal, verða auðvitað að gera sér grein fyrir því að alls staðar í heiminum er verið að ræða um það hvernig við getum dregið úr sóun orkunnar en hér tölum við um hvernig við getum aukið orkuframleiðslu. Hér stendur allt á haus. Það skiptir verulegu máli að hæstv. umhverfisráðherra fái tæki í hendurnar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og í Kaupmannahöfn árið 2009 verður hún að geta sýnt að hér sé einhver viðleitni í gangi. Hvað ætlar hæstv. umhverfisráðherra með í farteski sínu til Kaupmannahafnar og hvenær ætlar hún að sýna þau spil? Það er löngu orðið tímabært og ég vonaði að við fengjum að sjá eitthvað í skýrslu hennar en það er öðru nær. Því miður sjáum við það eitt að enn eru deilur um framkvæmdir sem við erum afskaplega sár yfir og það er erfitt að leita sátta. Hæstv. umhverfisráðherra verður samt að standa í lappirnar í þessum efnum. Það er ekki hægt að halda áfram á þessari braut, að sóa auðlindum okkar og halda áfram rányrkju auðlinda til lands og sjávar. Það verður að breyta um kúrs og það er bara hægt með því að setja stopp á stóriðjubrjálæðið og fara í atvinnuuppbyggingu sem byggir á öðru en rányrkju auðlindanna.

Hámarksnýting á því afli sem kemur upp í jarðvarmaholum er 14%, allt hitt fer til spillis. Þetta er ekki nokkur hemja. Þetta er ekki hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar heldur ofnýting, rányrkja, ágeng nýting eins og segir réttilega í skýrslum um umhverfismat, þegar jarðvarmavirkjanirnar eru settar í gegnum umhverfismat. Þessu verður að linna.

Við sjáum nú framkvæmdir sem eru með þeim hætti að hæstv. umhverfisráðherra segir að það verði að leita sátta í framkvæmdagleðinni. Ég er hjartanlega sammála en þá verður hæstv. umhverfisráðherra að sýna að hún geti sætt einhver sjónarmið. Henni hefur ekki einu sinni tekist að sætta samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn á að það þurfi að gera landsskipulag. Hvernig ætlar hún þá að sætta okkur við Múlavirkjun sem fór langt fram úr skipulagsheimildum eða Fjarðarárvirkjun fyrir ofan Seyðisfjörð þar sem allt er flakandi sár, virkjun sem fór líka út fyrir öll mörk í upphaflegu skipulagsferli? Hvernig ætlar hún að sætta okkur við nýjar grjótnámur í óröskuðu svæði fyrir ofan Seljalandsfoss eða það að vegur verði byggður upp niður eftir Markarfljótsaurunum fyrir hafnargerð úti á miðju Atlantshafi? Hvað með það sem er að gerast uppi í Teigsskógi eða á Gjábakkavegi? Það er mál að linni, (Forseti hringir.) hæstv. forseti. Það verður að fara að vinna öðruvísi í umhverfismálum og hæstv. umhverfisráðherra hefur sannarlega verk að vinna í þeim efnum.