135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[11:40]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil líkt og aðrir hv. alþingismenn þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir þessa skýrslu. Hún veitir að mínu mati mjög greinargott yfirlit yfir umhverfismál og störf umhverfisráðuneytisins og dregur fram með mjög skýrum hætti hversu mjög mikilvægi þessa málaflokks hefur aukist á undanförnum missirum og árum. Það er vissulega ánægjulegt fyrir alla þá sem láta sig íslenska náttúru og umhverfismál varða að sjá að sú aukning og meðvitund sem hefur verið að vaxa í samfélaginu er að leiða til þess að okkur gengur betur að umgangast náttúruna, af meiri skilningi og meiri virðingu en kannski var hér á árum áður.

Margt af því má reyndar rekja til þess að efnahagslegar aðstæður okkar Íslendinga hafa verið að eflast og batna mjög og þá gerist það hjá okkur eins og svo mörgum öðrum að augu manna opnast betur fyrir því að það ber að vernda náttúruna, það eru önnur gildi en bara að hafa í sig og á eða byggja yfir sig hús sem skipta máli. Það skiptir máli að hafa aðgang að óspilltri og hreinni náttúru, það skiptir máli að það sé auðvelt fyrir okkur að fara út úr húsunum okkar og eiga ekki nema skotstund upp á ómengað og ósnert hálendið, það skiptir máli fyrir gæði íslensks samfélags. Það skiptir líka miklu máli að vera örugg á því að hafa hreint vatn, örugg og hrein matvæli. Við getum verið sammála um að allir þessir þættir skipta máli.

Vandinn í umhverfismálum er sá að allt frá tímum iðnbyltingarinnar þegar framleiðsluhættir kapítalismans voru að þróast voru tveir þættir sem voru sennilega ekki hafðir með, einfaldlega vegna þess að annaðhvort yfirsást mönnum þeir eða menn töldu þá skipta ekki máli. Annars vegar var það það að menn litu ekki nægilega til þess að auðlindir kynnu að þverra og til þeirrar staðreyndar var ekki tekið nægilegt tillit í framleiðsluaðferðum. Hitt sem skiptir líka miklu máli var að skilningur manna á áhrifum mengunar var ekki til staðar með sama hætti og nú er. Með öðrum orðum, hvernig við framleiðum vöru og hvernig við framleiðum þjónustu á rætur sínar að rekja til iðnbyltingarinnar þegar þessir þættir voru ekki jafnljósir og þeir eru nú.

Það sem er stóra verkefnið í umhverfismálum og öllu skiptir er það að framleiðsluhættir nútímans verða að taka þessa þætti inn að fullu leyti, það er hið stóra verkefni. Það er nefnilega ekki nóg að við reynum að framleiða minna, að við reynum að menga aðeins minna, að við reynum að draga úr með þeim hætti, það er ekki það sem verkefnið snýst um. Verkefnið snýst um að framleiða með öðrum hætti, að framleiða með vistvænum hætti af því að það er jú þannig í veröldinni að það er ekki nema lítill hluti mannkyns sem býr við þá blessunarlegu stöðu sem við Íslendingar búum við, að hafa jafnmikið á milli handanna og við höfum og vera það efnahagslega sterkir að hafa efni á því að horfa á þau gildi sem skipta svo miklu máli sem ég lýsti í upphafi ræðu minnar. Meiri hluti mannskyns býr við allt aðrar aðstæður. Meiri hluti mannkyns býr við að þurfa að berjast við það að hafa í sig og á á hverjum degi og þá er því miður ekki verið að horfa svo mjög til umhverfismálanna. Þess vegna skiptir það máli að við gerum allt sem við getum til þess að hjálpa markaðnum — og þegar ég segi við þá á ég við stjórnvöld — að við gerum allt sem hægt er til þess að hjálpa markaðnum til þess að breyta þessum framleiðsluaðferðum.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við þyrftum að skoða betur þjóðhagsreikninga okkar, þ.e. hvernig við mælum framfarir í samfélaginu. Við gerum það vanalega með því að líta t.d. á þjóðarframleiðsluna og þegar hún er að aukast teljum við að öllu jöfnu að það hafi gengið ágætlega. Vandinn er sá að aukning þjóðarframleiðslu getur stundum átt sér alveg furðulegan uppruna, t.d. þegar hið hræðilega mengunarslys, Exxon Valdez slysið, varð í Kanada. Hreinsunarstarfið sem varð í kjölfar þess var svo gríðarlegt að það mældist sem aukning á þjóðarframleiðslu og auðvitað er það fullkomlega öfugsnúið, að unnt sé að mæla mengunarslys sem efnahagslega framför og bætta vellíðan þjóðarinnar. Það eru slíkir hlutir sem við þurfum að velta fyrir okkur og um leið og við gerum það erum við að hjálpa markaðnum og hvetja hann í rétta átt.

Mig langar að nefna hér í þessum ræðustól að í störfum forseta Íslands á meðal auðmanna hefur hann lagt mikla áherslu á umhverfismálin. Ég tel að forseti Íslands sýni þar mikinn skilning því að það er einmitt á markaðnum og hjá fyrirtækjunum sem lausnanna á þeim vanda sem við erum að fást við er að leita. Ég vil vekja athygli, herra forseti, þingheims á því að nú er fram undan í Reykjavík ráðstefna sem forseti vor er verndari fyrir þar sem koma munu saman bílaframleiðendur, orkuframleiðendur, sem eru að leita leiða til þess að breyta því hvernig við búum til bíla, hvernig við framleiðum bíla — af því að hugmyndin er ekki sú að búa til færri bíla. Hugmyndin er sú að búa helst til fleiri bíla sem menga ekki, það er niðurstaðan. Í þessu felst auðvitað ákveðinn hugmyndafræðilegur mismunur á milli t.d. þeirra sem eru á minni stjórnmálaskoðun, sem telja að markaðurinn búi yfir þessum lausnum, og þeirra sem vilja reyna að ná árangri í umhverfismálum bara með því að beita boðum og bönnum. Á því er töluverður mismunur og ég fagna því mjög hversu næman skilning forseti Íslands hefur einmitt sýnt á þessum málum.

Í skýrslu hæstv. ráðherra kemur fram einnig hvað þetta varðar, sem ég fagna mjög, aukin áhersla á umhverfismerkingar. Þegar kemur að því að virkja almenning til þess að taka þátt í því að bæta umhverfið eru umhverfismerkingar algjört lykilatriði, að almenningur geti gert sér grein fyrir því þegar við förum út í búð til að kaupa vöru eða kaupa þjónustu að það sé með óyggjandi og öruggum hætti hægt að vera viss um það að sú vara og þjónusta sem við kaupum sé umhverfisvæn. Sama gildir reyndar líka um þá stefnu sem lýst var í skýrslu hæstv. ráðherra um vistvæn innkaup opinberra stofnana. Ég tel að þetta skipti gríðarlega miklu máli fyrir okkur Íslendinga að við höldum þétt á þarna, hér er um að ræða eina 100 milljarða sem er stór hluti af þjóðarframleiðslunni, og ef okkur tekst að sameina þau sjónarmið annars vegar að gæta fyllsta aðhalds og sparnaðar fyrir hönd skattgreiðendanna en um leið að stuðla að bættri náttúru og bættri náttúruvernd erum við á réttri leið. Ég hvet hæstv. ráðherra mjög í þessum málum og tel að hæstv. ráðherra sé á réttri leið hvað þetta varðar.

Ég vil líka mótmæla því sem kom fram í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að umhverfisráðherra sinnti störfum sínum ekki nægilega vel, að það væri ekki næg áhersla hvorki hjá hæstv. ráðherranum né ríkisstjórninni á þennan málaflokk. Ég tel að þessi skýrsla sýni hið gagnstæða og ef litið er nokkur ár aftur í tímann og menn bera saman umræðuna um umhverfismál þá og þá umræðu sem nú er og þann skilning sem hefur verið að vaxa á þessum málaflokki hlýt ég að mótmæla því að það hafi ekkert miðað áfram. Ég held að það sé ósanngjarnt að líta svo á og ég tel að þegar menn líta á þau verkefni sem hér er lýst og hvernig þeim hefur miðað fram sé augljóst að málaflokknum hefur verið vel sinnt.

Það sem skiptir auðvitað máli er hvað við gerum hér heima en ekki síður það sem við erum að gera erlendis. Einmitt þar tel ég að margt hafi verið ágætlega gert og bendi sérstaklega á þá stefnu sem við Íslendingar höfum framfylgt hvað varðar málefni hafsins, sem auðvitað skipta okkur Íslendinga alveg gríðarlega miklu máli.

Að sjálfsögðu vegur þyngst það sem fram undan er þegar kemur að ráðstefnunni í Kaupmannahöfn og stefnu okkar Íslendinga í loftslagsmálum. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að stefna að því, þegar kemur að því samkomulagi, að nýta sem best, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, þá möguleika sem eru fólgnir í markaðnum til þess að leysa með tæknilegum hætti þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir, því þau verða ekki leyst með boðum og bönnum. Þau verða einungis leyst þannig að markaðurinn finni leiðir til þess að framleiða vöru og þjónustu þannig að ekki hljótist mengun af. Þess vegna skiptir máli að stefna okkar Íslendinga sé byggð á því að þær þjóðir og þau fyrirtæki sem hafa tækifæri til þess að nýta hreina orku, bestu fáanlegu tækni og geta framleitt vöru og veitt þjónustu þannig að ekki hljótist mengun af eða leiði til þess að það dragi úr mengun á alþjóðavísu, til slíkrar starfsemi á að hvetja, ekki draga úr.

Ég hjó eftir því í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að þingmaðurinn nefndi að markmiðið væri að draga úr sóun orku. Markmiðið er að draga úr mengun, það er það sem skiptir mestu máli, það er það sem er grundvallaratriðið í því sem við erum að fást við, þ.e. að draga úr mengun. Mengun sem verður til þess að við erum með orkugjafa sem er mengandi eins og olía, og við nýtum hann mjög illa og mengum þar af leiðandi er mjög alvarlegt mál, ekki bara fyrir okkur Íslendinga heldur heimsbyggðina alla.

Í Kaupmannahöfn erum við að leita leiða til að draga úr mengun. Við Íslendingar erum bara svo lánsöm þjóð að við búum yfir orkulindum sem eru, þegar borið er saman við aðrar orkulindir, mjög hreinar og að sjálfsögðu eigum við að halda þeirri staðreynd á lofti í Kaupmannahöfn. (Gripið fram í: En Hellisheiðin?) Að sjálfsögðu eigum við að halda því á lofti að möguleikar okkar til þess að framleiða valda minni mengun en möguleikar sem aðrir hafa. Að sjálfsögðu eru þeir ekki mengunarlausir en það er ekki stærsti vandi heimsbyggðarinnar, hv. þingmaður, að mosinn hafi drepist á heiðinni, það er ekki það sem heimsbyggðin hefur mestar áhyggjur af. Þetta er staðbundið vandamál hjá okkur sem við getum leyst og eigum að leysa í samvinnu við vísindamenn okkar.

Við eigum að hafa áhyggjur af því að þegar við ræðum þessi mál verðum við að horfa á þau í hnattrænu samhengi og áhyggjur okkar eiga að snúa að því hvernig við Íslendingar getum lagt gott til málanna á alþjóðavettvangi til þess að við náum lausn á þessu mikilvæga vandamáli. Ég er þeirrar skoðunar að sú leið og sú nálgun sem íslensk stjórnvöld fóru í þessum málum, leið sem hefur verið kölluð íslenska ákvæðið, hafi verið mjög skynsöm og mjög ábyrg leið. Það er rangt og það er útúrsnúningur og það er verið að snúa hlutunum á haus þegar talað er um það sem eitthvert mengunarákvæði. Ákvæðið gengur nefnilega nákvæmlega út á að þeir sem geta framleitt með þeim hætti að það dragi úr menguninni á heimsmælikvarða, það eigi að ýta undir slíka framleiðslu, það eigi að ýta undir framleiðslu þar sem er verið að framleiða með bestu fáanlegu tækni, þar sem besti fáanlegi mengunarvarnabúnaður er notaður. Það eru slík ákvæði sem skipta öllu máli þegar kemur að því hvort við náum árangri þegar upp er staðið í Kaupmannahöfn.

Virðulegi forseti. Að lokum hvað varðar orkuuppbyggingu og iðnað hér á landi. Ég vil gera eina athugasemd við annars ágæta skýrslu hæstv. ráðherra en í niðurlagi skýrslunnar segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Raddir heyrast um að við slíkt ástand“ — þ.e. efnahagsástandið hér — „þurfi að slaka á kröfum um umhverfisvernd og góða grundun ákvarðana um framkvæmdir.“

Ég vil taka það fram fyrir hönd míns flokks að um ekkert slíkt er að ræða. Það hefur hvergi komið fram í málatilbúnaði Sjálfstæðisflokksins að með nokkrum hætti eigi að draga úr kröfum um umhverfisvernd eða um gæði þeirrar ákvörðunartöku sem þarf að liggja til grundvallar þegar ráðist er í framkvæmdir. Stefna Sjálfstæðisflokksins í þessum málum er sú að það verði að vera sátt á milli nýtingarsjónarmiðanna, milli þjóðarinnar og milli landsins, af því að þetta verður ekki í sundur skilið, nýtingin og síðan verndunin. Þetta er grundvallaratriði og það er ekki með nokkrum hætti hægt að komast að þeirri niðurstöðu að í því sé fólginn einhver afsláttur á náttúruvernd þannig að ég reikna með að þessari setningu í skýrslunni sé beint að einhverjum ummælum sem hafa farið fram hjá mér og eiga í það minnsta ekki við Sjálfstæðisflokkinn. (Gripið fram í.) Ég vildi að þetta kæmi örugglega fram þannig að þeir sem þurfa og eiga að taka þetta til sín geti þá gert grein fyrir því ef þeir eru hér innan dyra.

Þetta er lykilatriði í málflutningi okkar sjálfstæðismanna að það er ekki bara þegar á móti blæs í efnahagslífinu sem þessi regla gildir, hún gildir líka þegar vel gengur. Við eigum að miða að þessu, við eigum að nálgast hlutina svona vegna þess að það samfélag sem við viljum byggja upp á Íslandi á að einkennast af því að við getum veitt alla þá þjónustu sem skiptir svo miklu máli, í heilbrigðismálunum, þjónustu til aldraðra, í menntamálunum og öllum þessum þáttum. Þetta þýðir að við þurfum að nýta náttúruauðlindir okkar með skynsömum, ábyrgum og vísindalegum hætti. Það er grundvöllurinn að stefnu ríkisstjórnarinnar, það er grundvöllur fyrir stefnu þess flokks sem ég tala fyrir og ég er reyndar sannfærður um að um það er góð sátt hér í þingsalnum.

Öfgasjónarmið sem byggja á því að það eigi ekkert að snerta, það eigi ekkert að gera, eða öfgasjónarmið sem segja að það eigi að gera allt og ekkert að gæta sín, þau eru jafngild og jafnslæm.