135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[12:36]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því, eins og aðrir þingmenn, að þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir skýrslu um umhverfismál. Það er að sjálfsögðu jákvætt að umhverfismálin fái sérstakan sess í störfum Alþingis með skýrslu ráðherra af þessu tagi og umræðum um hana.

Ég vil þó segja að svo mikilvæga umræðu sem við eigum hér um umhverfismál má þó ekki hefta eða takmarka í skjóli tiltekinna formreglna um umræður eins og hér hefur verið gert. Ég vil líka láta það sjónarmið í ljósi að ég tel mikilvægt að skýrslur af þessum toga, sem ráðherrar leggja hér fram, fái umfjöllun í fagnefndum þingsins. Ég vil þess vegna koma því viðhorfi á framfæri að það er eðlilegt að skýrsla af þessum toga fari til umfjöllunar í umhverfisnefnd. Augljóslega verður ekki úr því á þessu þingi vegna þess að við erum hér á næstsíðasta degi þingsins. Ég tel því mikilvægt að það verði haft til hliðsjónar í framhaldinu.

Ég tel að umhverfismálin í víðum skilningi séu eitt mikilvægasta viðfangsefni alþjóðasamfélagsins nú um stundir og þar með um leið stjórnvalda í hverju ríki fyrir sig. Og um þetta held ég að sé kannski ekki ýkja mikill ágreiningur.

Þegar ég segi að það sé um leið mikilvægasta verkefni stjórnvalda vil ég láta það sjónarmið koma fram að markaðurinn einn og sér mun ekki leysa þau viðfangsefni sem hér er við að glíma eins og mér fannst koma fram í máli hv. þm. Illuga Gunnarssonar. Markaðurinn mun ekki leysa þessi mál á sínum forsendum. Það þarf að setja framleiðslunni og framleiðsluaðferðunum mörk.

Umræða um umhverfismál er mikilvæg í sérhverju lýðræðissamfélagi. En til þess að lýðræðið geti verið virkt þarf að tryggja rétt almennings og félagasamtaka til upplýsinga og virkrar þátttöku í umræðum og ákvörðunarferli. Enn skortir á að við fullgildum Árósasamninginn, sem er mikilvægt tæki í þessu efni, og orðalag í skýrslu hæstv. umhverfisráðherra hvað þetta snertir er allt of veikt. Ég spyr: Hvers vegna nýtti ráðherrann ekki tækifærið og setti efnisatriði Árósasamningsins inn í frumvarp til nýrra skipulagslaga sem getur verið einn þátturinn í þessu efni?

Í skipulagsmálum, og þau eru einn angi umhverfismálanna, eru samráð, umræða og skoðanaskipti gríðarlega mikilvæg. Skipulagsáætlanir sveitarfélaga lúta ákveðnu verklagi hvað þetta snertir og það er að mörgu leyti til fyrirmyndar þó að enn megi gera betur í því sambandi. Landsskipulagsstefna getur verið gott tæki til að taka á heildstæðum skipulagsmálefnum en slík stefna þarf sömuleiðis að lúta lögmálum samráðs, upplýsinga og umræðu og lýðræðislegs ferlis. Það er augljóst að stjórnarflokkarnir hafa ekki getað komið sér saman um slíka stefnumótun en ég tel að hægt væri, og sé enn hægt, að ná breiðri samstöðu um einhvers konar landsskipulagsstefnu þar sem saman fer mikilvægi samráðs á milli aðila, ríkisins, hagsmunaaðila og sveitarfélaganna hvers fyrir sig.

Loftslagsbreytingarnar eru sannarlega stærsta ógnin sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir. Allir verða að leggja sitt af mörkum til lausnar þeim vanda. Það er skammarlegt að stærsta iðnríki heims og það ríki sem mest losar af gróðurhúsalofttegundum, Bandaríkin, skuli ekki vilja axla ábyrgð og það er forkastanleg afstaða. Það skiptir miklu, og það er rétt hjá hæstv. ráðherra, að stóru ríkin, Bandaríkin, og önnur þróuð ríki leggi sitt af mörkum en einnig vaxandi neyslusamfélög eins og Kína og Indland.

En þótt vandinn sé alþjóðlegur eru tækin til að takast á við hann ekki síst heima fyrir hjá hverjum og einum. Við þurfum að bera það sem okkur ber og muna að oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Við eigum að vera í fararbroddi og láta gott af okkur leiða, benda á það sem vel hefur tekist í samfélagi okkar og hvergi hvika í því að taka á okkur ríkar skuldbindingar án undanbragða. Kjarninn í alþjóðaskuldbindingunum er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og það verður ekki gert með síaukinni neyslu.

Ég vil líka spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvert veganesti ráðherrans verður í Kaupmannahöfn á næsta ári. Því það er ekkert, og það er að mínu mati miður, í skýrslu ráðherrans um markmið Íslendinga í þessu stóra og mikilvægasta hagsmunamáli og verkefni stjórnvalda og alþjóðasamfélagsins.

Ég ætla að nefna hér annað mál sem er mengun af völdum samgangna. Það er eitt helsta umhverfisvandamál í þéttbýli hér eins og víða annars staðar og losun gróðurhúsalofttegunda frá bílaumferð og siglingum ásamt flugsamgöngum er verulegt áhyggjuefni og alvarlegt hvað okkur miðar lítt í því að draga úr þeim vanda. Almenningssamgöngur eru nánast algjörlega vanræktar af hálfu ríkisvaldsins hér á landi. Þrátt fyrir alþjóðlegar skuldbindingar, m.a. frá Ríó, og fögur fyrirheit í samgönguáætlunum og stjórnarsáttmála er skilnings- og áhugaleysi stjórnvalda allt of mikið.

Ég er forvitinn að vita hvað líður störfum nefndar samgönguráðherra frá því í maí í fyrra um almenningssamgöngur en nefndin kynnti drög að tillögum sínum í febrúarbyrjun á þessu ári. Nú veit ég ekki hvort hæstv. umhverfisráðherra getur svarað því en við þessu þurfum við að fá svör. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram tillögur hér á Alþingi um að efla almenningssamgöngur en tillagan fæst því miður ekki afgreidd eða rædd í nefnd og því síður afgreidd út úr þingi.

Hér liggur líka fyrir tillaga frá fulltrúum allra flokka um að kanna aðra kosti í almenningssamgöngum, svo sem eins og lestarsamgöngur, en þrátt fyrir jákvæðar umsagnir þá hreyfist málið heldur ekki í nefnd. Því miður virðist allt of lítill vilji til að gefa þessum þáttum aukið vægi hvað sem líður fögrum yfirlýsingum í hátíðarræðum.

Gjaldtaka er leið, og það er nefnt í skýrslu umhverfisráðherra, til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum og örva notkun umhverfishæfra ökutækja og eldsneytis. Í þessu efni þarf að gera miklu meira en þegar hefur verið gert og mér leikur líka forvitni á að vita hvað ríkisstjórnin hyggst fyrir með þær tillögur sem þegar liggja fyrir í nefndarformi hvað þetta áhrærir.

Herra forseti. Þjóð sem byggir afkomu sína jafnmikið á auðlindum sjávar og við Íslendingar, og erum eyþjóð, vitum hversu viðkvæm hafsvæðin og lífríki hafsins eru fyrir hvers konar mengun. Við erum líka matvælaframleiðendur til lands og sjávar og þurfum að tryggja matvælaöryggi og innlenda framleiðslu. Auknir skipaflutningar, sem m.a. fylgja loftslagsbreytingum, munu hafa áhrif við Íslandsstrendur. Norðurskautssiglingar munu stóraukast. Aukin olíuumsvif verða á norðurslóðum og það leiðir einnig til aukinnar skipaumferðar. Á sama tíma er af fullri alvöru verið að undirbúa olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Stakir ráðherrar segjast í yfirlýsingum sínum andvígir þeim áformum en hvað aðhafast þeir og hvað hyggjast þeir gera í því sambandi?

Við þurfum að vera vel á verði hvað varðar mengun sjávar og ég vil minna sérstaklega á þingsályktunartillögu sem ég hef flutt ásamt öðrum um að samdar verði reglur um siglingaleiðir við norðan- og vestanvert Íslands, m.a. í tengslum við Norðuríshafssiglingar, og afla staðfestingar Alþjóðasiglingamálastofnunar á þeim. Þetta mál hefur því miður heldur ekki fengist rætt eða afgreitt þó að í sjálfu sér ætti ekki að vera ágreiningur um það.

Því hefur nú þegar verið haldið fram í þessari umræðu að umhverfismálin séu jaðarmálaflokkur hjá núverandi ríkisstjórn þvert á það sem stendur í skýrslu umhverfisráðherra. Um þetta eru vafalaust mismunandi skoðanir og við tökumst á um það eins og gengur. En ég tel að þessar fullyrðingar eigi við rök að styðjast og það sést á því að umhverfisráðherra, hvað sem líður vilja ráðherrans sjálfs, er í sífelldri vörn gagnvart samherjum sínum í ríkisstjórnarliðinu. Þegar horft er á yfirlýsingar annarra ráðherra, m.a. iðnaðarráðherra og forsætisráðherra, verður því miður ekki séð að umhverfisráðherra fari ein og óskipt með umhverfismál í ríkisstjórninni.

Flokkur umhverfisráðherrans mótaði stefnu fyrir síðustu kosningar og kallaði Fagra Ísland og bauð landsmönnum til fylgis við sig um þá stefnu. Sú stefna beið hins vegar, að okkar mati í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, skipbrot strax í stjórnarsáttmálanum og er enn pikkföst á strandstað hálfu öðru ári síðar.

Herra forseti. Við eigum öll þessa jörð saman. Verkefni okkar er að tryggja sjálfbæra þróun sem gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum og að tryggja náttúrunni og lífríkinu rétt til að þróast á eigin forsendum. Umhverfislegir, efnahagslegir og samfélagslegir þættir þurfa að fléttast saman í allri þróun en því miður hefur hin pólitíska umræða tilhneigingu til að einskorðast við þröngt skilgreinda efnahagslega hagsmuni einkum þegar á móti blæs og það er varasöm þróun.

Efnahagsleg velferð verður aldrei tryggð með því að ganga á höfuðstól umhverfis og samfélags. Því miður hafa íslensk stjórnvöld um langt árabil látið hagsmuni umhverfis og náttúru sitja á hakanum í glórulausri trú á stóriðju með tilheyrandi mengun og náttúruspjöllum og það er viðurkennt í skýrslu umhverfisráðherra. Á hinn bóginn er fátt bitastætt í skýrslunni um að nú verði blaðinu snúið við og umræðan hér í dag eykur ekki bjartsýni á að nýir tímar séu í vændum í þessu efni. Ég vil þó undir lokin, herra forseti, aftur þakka ráðherranum fyrir að flytja þessa skýrslu því það er nýbreytni og það er jákvætt. En ég kalla eftir því að skýrslur af þessum toga fái ríkari tíma til umræðu í þinginu og fari til umfjöllunar í viðkomandi (Forseti hringir.) þingnefndum.