135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[12:46]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir hv. þingmenn þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir þessa skýrslu, að hún skuli vera lögð hér fram og fá þá umfjöllun sem raun ber vitni í dag. Ég get jafnframt tekið undir það með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að umhverfisnefnd getur tekið þessa skýrslu til umræðu þó það verði á nýju þingi í haust. Umhverfisnefnd getur þá farið yfir skýrsluna efnislega og ég tel að það væri mjög jákvætt.

Við erum að fara yfir þessa skýrslu og reyna að átta okkur á þeim efnisþáttum sem við erum sammála um og það sem við erum ekki sammála um. Við reynum að ná sáttum og fara yfir þessi mál sem eru náttúruverndin og umhverfismálin. Ég tek undir ræðu kollega míns, hv. þm. Illuga Gunnarssonar, sem lýsti stefnu Sjálfstæðisflokksins mjög vel og fór vandlega yfir efnahagslega og umhverfislega þætti sem svo nauðsynlegt er að við höfum í huga. Fyrir það vil ég þakka. Mig langar jafnframt, herra forseti, að lesa hér upp eina setningu í þessari skýrslu sem mér finnst vera góð og við þurfum að hafa í huga. Þess vegna les ég hana sérstaklega upp, hún er á bls. 10.

Þar segir:

„Hér er um að ræða síkvikt samspil jökla, eldvirkni, jökulhlaupa, eldgosa og jarðhita.“

Það er verið að lýsa náttúru Íslands. Mér finnst að þetta sé atriði sem við verðum að hafa í huga, náttúra okkar er síkvik, hún breytist sí og æ. Við þurfum að lifa með þessari náttúru, lifa af landinu og taka tillit til þeirra breytinga sem eru hverju sinni.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði í ræðu sinni áðan að það væri verið að fórna náttúruperlum á altari stóriðju. Mér finnst á einstaka stað í þessari ágætu skýrslu verið að ýja að þessu. Þessu er ég alls ekki sammála. Ég held að virkjanir hafi í mörgum tilfellum stórbætt náttúru okkar.

Mig langar að fara nokkrum orðum yfir virkjanir. Ég hef búið í nábýli við Þjórsár-/Tungnaársvæðið, unnið á því í marga áratugi og þekki hvernig það svæði hefur breyst. Tökum sem dæmi að ein mesta náttúruperlan á landinu, alla vega á Suðurlandi, er gjáin í Þjórsárdal. Að ganga frá Stöng og upp í gjána er einstök upplifun. Ég hef gert það með útlendingum og það er einstakt. Þetta er einstök náttúruperla, ekki síst síðari ár.

Hvað hefur breyst? Þegar Búrfellsvirkjun og Sultartangavirkjun komu hætti Þjórsá að flæða yfir þetta fallega svæði með jökulleir og ísa og eyðileggja svæðið nánast. Nú er gjáin perla, ein mesta perla í Þjórsárdalnum. Það hefur gerst fyrir tilstilli virkjananna og beislunar þessara jökulvatna. Við eigum þess vegna ekki alltaf að segja að verið sé að fórna náttúruperlum á altari stóriðju. Ég get nefnt mýmörg dæmi á Þjórsár-/Tungnaársvæðinu sem eru gersemar vegna þess að búið er að beisla þessi jökullón sem þvældust um og eyddu gróðri, fluttu jökulleir og sanda yfir gróin lönd. Við eigum að horfa á og nálgast þetta frá því sjónarmiði líka, þarna eru tveir vinklar í sem við þurfum að hafa í huga. (Gripið fram í.)

Við skulum nýta vatnsaflið. Það er talað um Þjórsárverin í skýrslunni. Auðvitað ætlum við okkur að vernda þau, það hefur hvergi komið fram að ekki skuli nýta Þjórsárverin. Hins vegar er mögulegt að vegna hitnunar breytist landslag í Þjórsárverum. Vötnin geta líka breytt Þjórsárverum, við skulum vera undir það búin líkt og með Langasjó. Skaftá rann í gegnum Langasjó. Svo að ég vitni aftur í þessa ágætu setningu þá er náttúran síkvik og við verðum að fylgjast með því og vera tilbúin að átta okkur á þeim hlutum.

Ég sé að tími minn styttist. Ég hef komið að þeirri hugmynd að umhverfisnefnd fari nú og skoði Hekluskógaverkefnið sem mundi upplýsa umhverfisnefnd mikið um það sem ég hef hér verið að segja.

Í skýrslunni er talað um innlenda framleiðslu og ég vil nefna það hér að menn eiga að huga að því að nýta innlendar vörur. Hér fyrir þinginu hefur legið frumvarp um að við gerumst aðilar að innri matvælamarkaði Evrópusambandsins. Þá skulum við hafa það í huga í öllum flokkum að það er mikilvægt að við framleiðum holl og góð matvæli og nýtum þau hér innan lands. Það sparar okkur mikinn útblástur og ég held að það sé okkur mjög nauðsynlegt.

Ég kom aðeins inn á það sem gerst hefur á Þjórsár-/Tungnaársvæðinu en ég get ekki farið héðan án þess að nefna stórvirki sem unnin voru hér á tímum áður. Í skýrslunni er talað um umhverfismál í sögulegu samhengi. Vita menn á hinu háa Alþingi hvað gert var þegar Markarfljótið sjálft var afgirt en það rann fyrir Landeyjarnar allar austur undir Vestur-Eyjafjöll, allt í gegnum Þverá, Hólmsá og út í Þjórsá þannig að bæirnir í Þykkvabænum eru allir uppi á hæstu hólum? Hvað skyldu nútímaumhverfissinnar segja ef fara ætti í slíkar framkvæmdir eins og gert var en þar ávannst þá eitthvert besta landbúnaðarland á Íslandi? Þetta vil ég draga fram þegar menn ræða um það hér að ekki megi búa til lón við Bjallavirkjun. Mér finnst að við þurfum að koma því sem verið er að gera svolítið í sögulegt samhengi.

Stærstu birkiskógar Íslands munu sjást nú á næstu árum á Skeiðarársandi og það er fyrir tilstilli þess að lagður var vegur yfir Skeiðarársand og árnar stokkaðar. Fyrir sunnan þjóðveginn er að koma upp breiða af birkiskógum þar sem birkifræin frá Skaftafelli hafa fengið að sá sér og spíra — þar er að koma mikill skógur sem við munum sjá. Þetta er allt fyrir það að lagður var vegur. Svo tala menn um að ekki megi leggja veg yfir Kjöl, það muni spilla einhverju. Auðvitað mun það stórbæta samgöngur á milli Suður- og Norðurlands. Það munu koma skógar í kjölfarið þar sem voru skógar fyrir á Kili, það er alveg augljóst mál. Við eigum að horfa á þessar jákvæðu hliðar á framkvæmdunum. (Gripið fram í.) Þar vil ég enn minna á þessa síkviku náttúru okkar.

Vatnajökulsþjóðgarði eru gerð góð skil og ég vænti þess og vona að Alþingi sjái sér fært að standa við þær fjárskuldbindingar sem við ætlum okkur til þess að það verkefni megi verða eins og við viljum sjá.

Ég sé að tími minn líður óðum. Mig langar aðeins inn í loftslagsumræðuna sem hér hefur verið nokkur og minna á ráðstefnu sem ég sat ásamt hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur á Gotlandi í síðustu viku. Ráðstefnan var um orku- og loftslagsmál þar sem menn fóru yfir þá gríðarlegu mengun sem orðin er í Eystrasaltinu vegna bæði köfnunarefnis- og ekki síst fosfórsmengunar þar sem nánast er búið að drepa líf á stórum svæðum í Eystrasaltinu. Við heyrum um áhyggjur nágranna okkar varðandi mengun.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir spurði rússneska fulltrúann hvað Rússland framleiddi mikið af orku sinni úr kjarnorku. Jú, það stóð ekki á svarinu. Rússar framleiða 16% af heildarorku úr kjarnorku en það fannst honum ekki nóg. Fulltrúinn sagði jafnframt án þess að vera spurður: Við munum nú innan örfárra ára tvöfalda það og rúmlega það þannig að 35–40% af orkunotkun Rússa komi úr kjarnorku. Hann bætti við: Við erum að huga að því að fara í vatnsafl og gufuafl. Það var innleggið frá Rússum í umræðuna um að spara CO2 og um endurnýjanlega orkugjafa en við höfum sérstöðu varðandi þá hér á Íslandi.

Í lokin, herra forseti, vil ég taka undir lokaorð þessarar skýrslu sem segir að við Íslendingar höfum (Forseti hringir.) meiri möguleika en flestar aðrar þjóðir til að byggja atvinnu okkar upp, standa að því með því að lifa í sátt og samlyndi við (Forseti hringir.) náttúruauðlindirnar og þannig munum við vinna.