135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[13:41]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er rétt að byrja á að þakka að þessi umræða skuli koma hér upp með þeim hætti að umhverfisráðherra komi með skýrslu hér inn í þingið og ræði stöðu umhverfismálanna vítt og breitt.

Umræðan hefur auðvitað borið það með sér að hún hefur farið vítt og breitt en ég held að hún hafi ekki farið djúpt. Hvað á ég við með því? Ég hef ekki séð hana fara mikið niður í sjóinn.

Það vill nú svo til að sá sem hér stendur hefur löngum haft mikinn áhuga á hafinu, fjörunni, fjörðunum og því umhverfi sem þar er. Mér hefur oft og tíðum fundist að umræðan um umhverfismál hafi allt of mikið einkennst af því að menn horfi sérstaklega á mannvirkjagerð og þá oftast nær þannig að mannvirkjagerð sé af hinu slæma. Hún sé óvinur náttúrunnar og beri að skoða vel hvernig þar er að verki staðið.

Ég tek undir að það þarf að fara varlega að því er varðar náttúruna en eins má benda á að það skiptir máli hvernig við nýtum náttúru okkar og hvað við aðhöfumst í því sambandi. Sumar framkvæmdir kunna einfaldlega að vera mjög nauðsynlegar. Það er alveg ljóst að við Íslendingar getum ekki búið í þessu landi án þess að nýta orku okkar eins skynsamlega og við getum, m.a. til þess að byggja upp stóriðju þar sem við teljum að það sé eðlilegt og til bóta.

Ég vil taka fram til þess að koma í veg fyrir allan misskilning að ég er alls ekki að tala um álver í hverjum firði eða hverri vík. En ég gæti vel hugsað mér að tala um álver í hverjum landsfjórðungi vegna þess að við höfum jú þörf fyrir það vítt og breitt á landinu að reyna að tryggja undirstöðu atvinnuþátta í landsfjórðungunum. Þess vegna er það mjög eðlilegt að íbúar á Húsavík og þar í nágrenni geri kröfu til þess að fá að nýta orku sína og fái að nýta hana í heimahéraði sínu til undirbyggingar samfélagsins. Að mínu viti er því alls ekki hægt að leggjast gegn því að við nýtum náttúruna með skynsamlegum hætti.

Hitt vil ég líka segja að umhverfisumræðan hefur verið afar nauðsynleg og hún knýr fram betri orkunýtingu. Hún knýr fram þann vilja sem fyrirtækin verða að undirgangast, að draga jafnt og þétt úr mengun lofts og lagar, finna lausnir sem menga minna. Það er verkefni samtímans að geta nýtt orkuna en finna samt lausnir sem draga úr menguninni og að menga væntanlega þá eins lítið og mögulegt er í framtíðinni .

Við Íslendingar búum í fjöllóttu landi og þurfum að leggja hér vegi. Það er umdeilt. Það er m.a. deilt um hvort menn eigi að leggja veg í gegnum Teigsskóg á Vestfjörðum eða ofan til við hann. Ég fagna því að landsmenn fái nú að sjá þennan skóg þegar vegurinn verður lagður þar. Ég held að það sé öllum til bóta. Það er ekki spurning um að það verður Vestfirðingum til bóta að fá þar varanlegan veg alveg eins og það verður Vestfirðingum til bóta — og væntanlega landsmönnum öllum — að fá samtengingu á Vestfjörðum með varanlegum samgöngum og betri möguleikum til mannlífs og atvinnu.

Ég hef verið mikill aðdáandi og áhugamaður um að gera jarðgöng á Íslandi og tel að það þurfi enn að gera þrenn til fern jarðgöng á Vestfjörðum. Hið sama þarf að gera á Austfjörðum til að tengja saman byggðir. Þá erum við væntanlega farin að horfa á megnið af samgöngukerfi landsins á láglendi. Ég hef oft velt eftirfarandi fyrir mér: Hvað kostar nú að hafa þessa fjallvegi? Hvað haldið þið að það kosti að moka þessa heiði? [Þingmaður sýnir mynd í þingsal.] Þetta er Dynjandisheiði sem menn ætla ef til vill að leggja veg yfir í framtíðinni? Hæstv. umhverfisráðherra, hvað heldur þú það að kosti að moka þennan snjó? Þetta er í miðjum apríl á síðasta vori. (Gripið fram í.)

Hvað heldur þú að það kosti íbúa suðursvæðisins að keyra 650–700 kílómetra til að komast á fund á Ísafirði í staðinn fyrir að keyra kannski 120 þegar búið er að laga veginn? Á láglendisvegi sem tekur kannski 50 mínútur á milli Bíldudals og Ísafjarðar? Menn geta ekki leyft sér að tala eins og framkvæmdir séu alltaf neikvæðar. Þær eru það ekki.

Ætli jarðgöng eins og undir Hvalfjörð og Breiðadals- og Botnsheiði hafi ekki bjargað lífi svona 20–30 Íslendinga síðan þau voru gerð því að dauðaslysin voru tíð? Það er því að mörgu að hyggja orkulega, umhverfislega, tímalega og lífsgæðalega séð þegar við horfum á verklegar framkvæmdir. Það er alls ekki hægt að setja alltaf verklegar framkvæmdir fram með neikvæðum formerkjum. Það er bara ekki hægt og það er ekki efnisleg rökræða sem hægt er að sætta sig við.

Ég byrjaði á því að segja að mér fyndist ekki djúpt farið í umræðuna og átti þá við að það væri ekki farið mjög djúpt í hafsvæði landsins, strendur og firði. Landsfjórðungurinn sem ég kem frá, Vestfirðir, hefur 49 firði. Hann er með einn þriðja af strandlengju Íslands um 2000 kílómetra. Ég hef stundum spurt: Hvers virði er einn fjörður í náttúru Íslands til að viðhalda lífríki náttúrunnar, til að viðhalda þeirri auðlind sem við höfum byggt á um aldir sem hefur löngum verið ein af meginstoðum þess að hér sé útflutningur og atvinnulíf og gert mönnum kleift að lifa í landinu? Auðvitað eru fleiri stoðir komnar undir efnahag landsins í dag og ekkert nema gott um það að segja svo framarlega sem við förum ekki fram úr sjálfum okkur í þeim efnum. Ég er ekki hlynntur álveri í hverjum firði.

En ég er hlynntur því að stundaðar séu rannsóknir í þessum fjörðum og menn viti hvað einn fjörður í lífríki Íslands hefur að segja, hvað gefur hann af sér? Hvers vegna alast þorskseiði upp í öllum fjörðum Ísafjarðardjúps? Hafa menn leitast við að svara því? Hafa menn leitast við að svara því hvað minkurinn í sjávarríkinu, skötuselurinn, étur mikið? Ný tegund á Íslandsmiðum sem er komin allt í kringum land. Hefur einhvers staðar verið leitað svara við því? Nei.

Það er geysilega mikið sem vantar inn í þessa rökræðu og umræðu þegar við tölum um náttúru Íslands því að við þurfum að tala um hana uppi á fjöllum, niðri í dölum og niður í höfin. Við höfum ekki með neinu móti kortlagt þann breytileika sem nú hefur orðið á íslenskum fiskimiðum með aðkomu nýrra tegunda eins og ósaflúru, hlýsjávarbarra, makríl og fleiri fisktegunda, þ.e. hvaða áhrif hann hefur. Við njótum þess hins vegar í sumum tilvikum en ég bendi á að nýjar dýrategundir taka líka til sín fæðu.

Ég bendi einnig á kjölvatnið sem kemur með skipunum til landsins sem ekki hafa verið settar neinar sérstakar reglur um hvar dæla má út. Með kjölvatninu getur borist lífkeðja sem er kannski ekki æskileg í umhverfi okkar. Norðmenn hafa t.d. miklar áhyggjur af kóngakrabbanum sem kemur úr Norðuríshafinu þar sem Rússar slepptu kóngakrabba fyrir norðan Síberíu og breiðist nú út suður með Noregi o.s.frv.

Allt eru þetta umhverfisþættir. Hafstraumarnir okkar eru ekki minnsti umhverfisþátturinn. Þeir eiga í raun og veru mestan þátt í því og hlýnandi sjór — hvað veturnir hafa verið hlýir á láglendi undanfarin ár. En það er ekki endilega samasemmerki á milli þess og úrkomu á hæstu fjöllum. Þess vegna sýni ég þessa mynd hér frá því í (Forseti hringir.) apríl um snjóalög á Dynjandisheiði sem Vegagerðin talar jafnvel um sem tiltölulega snjólaust svæði.