135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[14:13]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir hér fagna þessari umræðu og fagna mörgu í þessari skýrslu. Ég er ánægður með að Alþingi gefi umhverfismálunum gaum og tel það mjög mikilvægt. En ég hefði viljað sjá meira innihald í skýrslu hæstv. umhverfisráðherra. Þarna er tæpt á mörgum málum en mér þykir lítið um lausnir og lítið um að bent sé á hvert eigi raunverulega að fara. Ég hef stuttan tíma til að fjalla um mikið mál þannig að ég ætla að hlaupa inn á nokkur atriði.

Það er talað um Vatnajökulsþjóðgarð sem er vissulega stórt framtak en ég bendi á að í raun sé Vatnajökulsþjóðgarður enn ekki nema nafnið tómt og svo hins vegar hitt sem ég held að dragi mjög úr því að hann verði okkur að gagni og það tæki til umhverfisverndar sem hann gæti orðið, þ.e. að hann hefur verið gerður að skúffufyrirtæki við Austurvöll sem er mjög miður. Þannig nær hann ekki því vægi og flugi sem hann þarf að ná. Ég skora á hæstv. umhverfisráðherra — ég hef gert það fyrr úr þessu ræðupúlti — að breyta þeirri ákvörðun sem hún og aðstoðarmaður hennar hafa komið mjög að og bera algjörlega pólitíska ábyrgð á, að höfuðstöðvar þjóðgarðsins skuli vera í Reykjavík. Það verður til þess að aldrei næst sú samstaða og sá slagkraftur bak við þjóðgarðsstarfið úti á landi sem þarf til og sem er langt í frá að sé orðinn.

Annað sem mig langar til að víkja að er sorpmálin. Ég sé að í þessari ágætu skýrslu er einmitt vikið að því að það þurfi að minnka sorpmagnið. Ég kalla eftir svolítið virkum og raunverulegum aðgerðum í þá veru. Það er hægt raunverulega að takmarka hvað auglýsingaöflin í samfélaginu geta mokað inn af pappír og öðru auglýsingaefni inn um póstlúgur hjá landsmönnum. Þetta er einn stærsti þátturinn í þyngd sorpsins og þarna skiptir máli hvar við setjum forganginn. Ef við setjum neytendur og umhverfið í forganginn setjum við auðvitað þá regluna að aðeins megi nota póstlúgur sem slíka sorphirðu þar sem fólk setur miða á póstlúguna og segir: „Já, ég vil frípóst.“ Það skiptir miklu máli hvaða leið er farin. Þetta er róttækasta leiðin og þetta er leið sem ég skora á núverandi umhverfisráðherra að fara og hef raunar nokkra trú á því að hún geti verið mér sammála í þessu eða vonir til þess að svo sé.

Það líður óðum á tímann og mér fer eins og tveimur síðustu ræðumönnum að hafa miklu minni tíma en ég vildi hafa í svo stóru máli. Nú í upphafi þessa stutta haustþings féllu þau orð hjá hæstv. forsætisráðherra að lausnin út úr efnahagsvandanum væri sú að framleiða, framleiða, framleiða. Nú spyr ég hæstv. umhverfisráðherra — og ég veit að hún mun líka svara mér þessu um pappírinn og Vatnajökulsþjóðgarð hér á eftir þegar hún kemur upp — en ég spyr hana líka og bið hana að svara mér hvort hún hafi verið sammála þessari áherslu út úr efnahagsvandanum. Sjálfur hef ég miklar efasemdir þegar hlutirnir eru settir fram með þessum hætti. Ég held nefnilega að umhverfisverndarhugsjónin okkar, umhverfisverndin í verki komi til þegar við fylgjum því sem kona ein í bókabúðinni hjá mér fyrir austan kallaði fyrir nokkrum missirum þegar hún var að versla hjá mér „framsóknardyggðir“, þ.e. að vera trú yfir litlu og reyna að gera sér gott úr því sem maður hefur. (Gripið fram í.) Þær framsóknardyggðir sem segja að hollur sé heimafenginn baggi eru þær dyggðir sem við þurfum að rækta og þess vegna held ég að einu stærsta umhverfisslysi núverandi ríkisstjórnar — og það er fjórða spurningin til hæstv. umhverfisráðherra þegar hún kemur hérna upp á eftir, þ.e. hvort hún sé mér sammála í því — að ég held að það hafi verið afstýrt mjög stóru umhverfisslysi nú á þessu haustþingi þegar ákveðið var að slá út af borðinu frumvarp um sameiginlegan innri matvælamarkað með Evrópusambandinu sem hefði þýtt stóraukinn tilflutning á matvælum, hefði þýtt niðurbrot á íslenskum landbúnaði. En einmitt það að við framleiðum hér matvæli í eigin landi og nýtum gæði landsins er eitt mikilvægasta atriðið í umhverfismálum okkar. Þetta kemur líka inn á fjölmörg önnur mál eins og til dæmis sorpmálin og því gleymdi ég áðan að mig langar að minnast á hvort umhverfisráðherra hafi leitt huga að því að núorðið færist mjög í vöxt og hefur verið að aukast bara nú eftir að þessi ríkisstjórn tók við(Forseti hringir.) völdum að sorp sé flutt milli landshluta með tilheyrandi mengun, (Forseti hringir.) vegsliti og vitleysu.