135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[14:31]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir skýrslu hennar. Ég vil taka fram að mér finnst virkni umhverfisverndarsinna afskaplega mikilvæg. Þó að ég sé alls ekki alltaf sammála þeim er mjög gott að heyra þessi sjónarmið í umræðunni og taka tillit til þeirra, og það er staðreynd að umræðan hefur breyst mjög mikið undanfarin ár.

Frú forseti. Öll virkni manna veldur mengun. Ég er viss um það að ef komin hefði verið Umhverfisstofnun og umhverfismat hefði landnám Íslands ekki verið leyft. Kindur á Íslandi hefðu verið bannaðar. Landbúnaður, bændabýli hefðu ekki komist í gegnum umhverfismat, ekki Reykjavík og ekki heldur Elliðavatn. Bláa lónið, Kárahnjúkavirkjun og Perlan eru allt saman umdeild virkni mannanna.

En mér finnst mjög mikilvægt, frú forseti, að við skiptum mengun niður í staðbundna og hnattræna mengun og áttum okkur á því að framleiðsla hverrar einustu vöru veldur mengun. Nýr jeppi kostar gífurlega mengun í framleiðslu, bæði staðbundna, þar sem hann er framleiddur, og líka hnattræna með koldíoxíðlosun.

Það verður að horfa undir yfirborðið. Það er ekki nóg að horfa bara á framleiðsluna, álframleiðslu á Íslandi, og segja: Þetta er slæmt. Um leið og við kaupum gos í áldós, sem sparar heilmikið af flutningskostnaði miðað við gler, erum við að biðja um álframleiðslu einhvers staðar hér á landi eða annars staðar.

Um leið og einhver tónlistarmaður heldur tónleika á Laugardalsvelli á sviði sem byggt er upp með áli er hann að biðja um framleiðslu á áli þó að hann sé að mótmæla því með tónleikunum. Við þurfum því að horfa undir yfirborðið og átta okkur á því hvert samhengi þáttanna er.

Það er t.d. talað um að gott sé að hafa metanframleiðslu á sorphaugum. Hefur einhver metið það hvað sú aðgerð að byggja 100 millj. kr. leiðslu til Reykjavíkur myndi kosta mikla mengun ein sér? Það að framleiða þessar pípur. Hafa menn áttað sig á því hvað það að sundurgreina sorp kostar mikla mengun? Að vera með margfalt kerfi í sorphirðu? Það getur vel verið að það borgi sig hreinlega ekki mengunarlega séð að vera að sundurgreina sorp. Þetta þurfa menn að fara að kanna og fara í gegnum.

Það er mjög mikilvægt að sætta umhverfissjónarmið og efnahagsleg sjónarmið. Við lifum ekki hér á landi án þess að nýta auðlindir þjóðarinnar, það er útilokað. Við verðum að nýta sjávarútveginn. Við verðum að nýta orkuna. Við getum ekki lifað í landinu án þess. Og til þess að nýta þessar auðlindir þurfum við að nýta mestu auðlindina sem er mannauðurinn. Og það þarf að flýta ferlum. Á það hefur verið bent hér í umræðunni að í sumum tilvikum væri umhverfismat farið að stöðva framkvæmdir. Það má ekki.

Ég hef þó mestar áhyggjur af Kyoto-samkomulaginu og hvernig við stöndum að því að gæta hagsmuna okkar þar. Við erum með íslenska ákvæðið sem bannar okkur að losa umfram ákveðið magn. Það þýðir að bannað er að framleiða ál á Íslandi með hreinni orku og það neyðir mannkynið til að framleiða ál í Kína og á Indlandi með raforku sem framleidd er með brennslu á jarðefnum, heilu fjöllunum af kolum, olíu eða gasi sem mengar hnattrænt. Þetta er nefnilega einn hnöttur og Kína og Ísland eru á sama hnetti, hæstv. umhverfisráðherra.

Það er því mjög mikilvægt að við breytum ákvæði okkar í viðræðunum sem verða núna í haust í þá veru að við föllum frá íslenska ákvæðinu, ekki neitt sérstakt, en krefjumst þess að það sé sama hvar framleitt er, það sama eigi að gilda, og það sé framleitt þar sem hagkvæmast er að gera það umhverfislega séð, þ.e. á Íslandi.

Ég geri ráð fyrir því að umhverfisverndarsamtök, þegar þau sjá undir yfirborðið og átta sig á samhengi þáttanna — því þetta er heil rökfræði — muni krefjast þess að Íslendingar virki hvern einasta foss. Ég vona að hæstv. umhverfisráðherra standi þá með mér í því að verja Gullfoss og Dettifoss. Það má líka vel vera að efnahagslega sé nóg komið af álverum og þá eigum við að nýta orkuna í eitthvað annað. En við þurfum engu að síður að nýta þessa auðlind, orkuna.