135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[14:51]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það líður að lokum þessarar umræðu og vil ég ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðherra fyrir þá skýrslu sem lögð hefur verið fram. Jafnframt vil ég færa fram mínar persónulegu þakkir til þeirra sem tekið hafa þátt í umræðunni, ég tel að hún hafi verið mjög góð. Það er að vísu ekki mitt um það að dæma, en sú er alla vega mín skoðun. Ég tel að þau meginsjónarmið sem skipta máli hafi komið fram og það er áhugavert að nefndir hafa verið ýmsir möguleikar, ýmis úrræði, ýmis verkefni, í þessum málaflokki sem ég er sannfærður um að hæstv. ráðherra hefur bæði haft ánægju, gagn og gaman af því að hlýða á þingmenn ræða.

Ég er þeirrar skoðunar að einna mikilvægast í þessu sé það verkefni stjórnvalda að hjálpa markaðnum að leysa þau vandamál sem hér hafa verið rædd. Sú löggjöf sem var samþykkt hér á þinginu sem sneri að raftækjum og rafeindatækjaúrgangi er að mínu mati gott dæmi um það hvað hægt er að gera með skynsamlegum aðgerðum til þess að hjálpa markaðnum að hreyfa sig í rétta átt. Með framleiðendaábyrgðinni sem var sett á þennan tækjaflokk og á þessa framleiðslu er verið að segja við framleiðendur á þessum vörum: Í framleiðslukostnaðinum, þegar þið hannið tækin, þegar þið hannið þjónustu ykkar, eigið þið að taka tillit til þess að það kostar að farga þessum tækjum. Eftir því sem tækin eru betur hönnuð, eftir því sem mengunin er minni því minni kostnaður er af framleiðslunni og þar af leiðandi hafa þeir framleiðendur sem leysa þetta vandamál betra tækifæri á markaði en aðrir og þeirra framleiðsla verður ofan á. Þetta gildir um þessa framleiðslu og þetta gildir um alla aðra framleiðslu. Þetta er gott dæmi um það hvernig hægt er að ná árangri í samvinnu milli markaðarins og stjórnvalda.

Síðan er það lykilmálið sem er spurningin um orkuna og um leið líka spurningin um hvernig við nýtum náttúruauðlindirnar og um leið alþjóðlegt samstarf á sviði loftslagsmála. Sú orka sem við Íslendingar framleiðum er þess eðlis að þeir sem vilja nýta hana verða að koma til Íslands og fjárfesta hér með verksmiðjur sínar og þjónustu. Þetta er ólíkt því sem t.d. gildir um olíuríki eins og Noreg sem setur orku sína í tunnur og flytur til annarra landa. Ástæða þess að ég nefni þetta á sama tíma og ég nefni loftslagsmálin er sú að þegar norska orkan er flutt í formi olíu til annarra landa og nýtt þar mælist það sem mengunarkvóti hjá landinu sem tekur á móti orkunni og þeirri framleiðslu sem þar fer fram. Því er öðruvísi farið hjá okkur, orkan sem við framleiðum og búum til er nýtt hér og telst því til okkar framleiðslukvóta. Þetta er eitt af því sem ég tel að væri rétt að hafa í huga þegar verið er að ræða um hvernig best sé að nýta orku og hvaða reglur eigi að gilda um mengun og mengunarkvóta í umræðum á alþjóðavettvangi.

Ég tel einnig rétt að nefna að það eru auðvitað allir að reyna að sækja hagsmuni landa sinna. Það skiptir því máli að við Íslendingar sækjum okkar hagsmuni en að við gerum það með ábyrgum hætti. Ég nefni það hér að ESB leggur t.d. á það áherslu að ákveða hvaða ár er lagt til grundvallar þegar verið er að reikna út aukningu á CO2 einfaldlega vegna þess að það ár sem þeir hafa lagt til grundvallar hentar ESB vegna þess að þá fengu þeir inn til sín öll þessi ríki Austur-Evrópu sem voru mjög aftarlega á merinni hvað varðar mengun og mengunarvarnir. Þar með eykst svigrúm þessara þjóða til þess að bæta stöðu sína. Við Íslendingar vorum bara komnir svo miklu lengra þegar að þessu ári var komið og því eru möguleikar okkar takmarkaðri en þeirra þjóða sem þar er um að ræða.

Ég vil að lokum nota tækifærið til að óska okkur öllum, Íslendingum, til hamingju með Vatnajökulsþjóðgarð. Ég tel að hann sé frábært dæmi um það hvernig, þvert á stjórnmálaflokka og þvert á stjórnmálaskoðanir, hægt er að ná miklum árangri í umhverfismálum í landi okkar. Vatnajökulsþjóðgarður og hugmyndin um hann varð ekki til á einni örskotsstundu, margir ráðherrar komu að því máli. Siv Friðleifsdóttir, sem þá var umhverfisráðherra, Jónína Bjartmarz og Sigríður Anna Þórðardóttir — allir þessir einstaklingar lögðu í störfum sínum sem umhverfisráðherrar mjög mikil og þung lóð á vogarskálarnar til þess að þessi (Gripið fram í.)— já, ég gleymi honum. Það er bara þannig að það er svo auðvelt að gleyma honum, það er bara — náttúran er þannig. Þessir ráðherrar lögðu (Forseti hringir.) gríðarlega mikið af mörkum, sem sýnir að umræðan um náttúruverndarmál þarf ekki að kljúfa samfélag okkar, hún á að geta sameinað okkur af því að hagsmunirnir eru sameiginlegir hagsmunir íslensku þjóðarinnar.