135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[14:56]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ástæða er til að þakka hv. þingmönnum fyrir afar málefnalega og góða umræðu um þá skýrslu sem hér liggur fyrir, skýrslu um umhverfismál. Mér telst svo til að einir 20 þingmenn hafi tekið þátt í umræðunni auk mín hér í dag. Eins og gefur að skilja koma hv. þingmenn úr ýmsum áttum með ýmsar skoðanir í farteskinu en mér þykir þessi umræða bera því vitni hversu mikið grundvallaratriði umhverfismálin eru orðin í Stjórnarráðinu, í stjórnmálunum og í stjórn landsins og, eins og hv. þingmenn vita manna best, þvert á alla málaflokka. Ég get tekið undir ýmislegt af því sem hér hefur verið sagt um að styrkja þurfi og stækka umhverfisráðuneytið, þangað megi færa fleiri málaflokka. Það væri bæði fýsilegt og skynsamlegt að gera það.

Ég lít svo á að það skref sem stigið var um síðustu áramót, breytingarnar á Stjórnarráðinu sem þá urðu, hafi verið fyrsta skref af mörgum í átt til þess að skipa Stjórnarráðinu með þeim hætti að það sé í takt við þau verkefni sem verið er að vinna í samfélaginu og í takt við þær kröfur sem samfélagið gerir til stjórnvalda og stjórnmálamanna.

Mig langar að reyna að svara nokkrum spurningum og ábendingum sem fram komu í þessari umræðu. Það verður aldrei þannig að ég hafi tíma til þess að bregðast við öllu eða svara öllu en eitthvað hlýtur samt að takast að segja hér á sex mínútum og þremur sekúndum, frú forseti.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fór víða í ræðu sinni og hélt því m.a. fram að sú sem hér stendur hafi vart verið búin að úrskurða um heildarmat framkvæmda vegna álvers við Bakka fyrr en hún fór að bakka í því máli, ef svo má að orði komast. Ég vísa því algjörlega á bug. Á daginn hefur komið að það sem ég hef alltaf sagt um þetta mál er að ef einhver töf verði séum við að tala um vikur og mánuði. Fyrir liggur að samráðsferli framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnunar hófst um leið og úrskurður féll og fyrir liggur hvernig fara eigi í gegnum heildarmatið, þetta er ekki flóknara en svo. Fyrirmæli úrskurðarins voru skýr og eftir honum er unnið.

Það var einnig rætt hér að ekki lægi fyrir markmið stjórnvalda, markmið ríkisstjórnarinnar, í loftslagssamningunum sem nú standa yfir. Það er ekki heldur rétt. Samningsmarkmið ríkisstjórnar Íslands voru afgreidd á fundi í lok nóvember, byrjun desember, fyrir aðildarríkjaþingið sem haldið var á Balí. Unnið er samkvæmt þeim samningsmarkmiðum og eftir því sem fram vindur í umræðunum og samningaviðræðunum mun fleira verða á því borði og það er fleira sem þarf að taka afstöðu til. Ég nefndi það m.a. verið er að vinna í þeirri tillögu Íslendinga að endurheimt votlendis gæti líka reiknast sem binding, og hefur verið tekið vel í hana í samningaviðræðunum. Við vonum svo sannarlega að endurheimt votlendis fái þá viðurkenningu sem við teljum að hún þurfi að fá í þessum samningum.

Hlutverk markaðarins hefur verið gert að umtalsefni, hv. þm. Illugi Gunnarsson hefur gert það. Markaðurinn getur verið mjög gott tæki til að ná markmiðum um umhverfisvernd og í umhverfismálum, m.a. þess vegna eru svokölluð sveigjanleikaákvæði í loftslagssamningnum nýtt og m.a. þess vegna er verið að setja upp kolefnismarkað svokallaðan. Markaður Evrópusambandsins með losunarheimildir, sem við verðum hluti af í gegnum EES-samninginn, er tæki til þess að nýta kosti markaðarins til að ná markmiðum í umhverfismálum, í þessu tilviki að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þann markað eigum við að nýta og þann markað munum við þurfa að nýta vegna þess að við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og munum með þátttöku í þeim markaði — það er mín skoðun — fara enn dýpra inn í samstarf við Evrópusambandið en nú er, a.m.k. í umhverfismálum.

Aðalatriðið í loftslagssamningunum — og það er það sem allir stefna að núna — er að ná heildarsamkomulagi með þátttöku allra ríkja heims og þar eru nokkur ríki lykilríki. Það verður ekkert samkomulag nema allir setjist við borðið og semji, skipti byrðunum og skipti þeim í samræmi við losun og sanngirni og efnahagsstöðu. Það er aðalmarkmiðið. Ef ekki næst samningur er tómt mál að tala um einhverja aðra kosti fyrir Íslendinga eða einhverjar aðrar kröfur. Aðalmarkmiðið er að ná saman um heildarmarkmið um bindandi samning sem allir taka þátt í.

Það er líka mjög mikilvægt í því sambandi að allir geri sér grein fyrir því að innan einhverra ára í tiltölulega náinni framtíð munu losunarheimildir fara á markað og ekki nema að litlu leyti verða í boði ókeypis. Auðvitað gerist þetta ekki í einu vetfangi en smám saman, eigi kolefnismarkaðurinn að virka, mun það verða þannig. Við þurfum, Íslendingar, fyrirtæki og stjórnvöld, að laga okkur að þeirri staðreynd.

Ég vil nota þetta tækifæri og fagna sérstaklega orðum hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar sem sagðist telja að hægt væri að ná saman um skynsamlega landsskipulagsstefnu. Þetta er sá hinn sami maður og skilaði séráliti í niðurstöðu nefndarinnar sem vann stóru frumvörpin sem hafa verið til umfjöllunar í umhverfisnefnd, var þá sem fulltrúi íslenskra sveitarfélaga. Ég tel miklu máli skipta að maður sem sat í undirbúningsnefndinni og hefur unnið að þessari lagagerð í öll þessi ár skuli tala með þessum hætti hér í dag. Það treystir mig í þeirri skoðun minni að hægt sé að ná niðurstöðu í því stóra máli.

Ég get líka tekið undir með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, formanni samgöngunefndar, að almenningssamgöngur eru umhverfismál og þær þarf að starfrækja með þeim hætti að ríkið sé ekki að leggja álögur á sveitarfélög sem halda úti almenningssamgöngum. Með einhverjum hætti þarf að leysa það mál og koma því þannig fyrir að hægt sé að létta undir með sveitarfélögunum þegar almenningssamgöngur eru annars vegar.

Rétt í lokin vil ég, vegna þess að ekki hefur gefist tækifæri eða tími til að fjalla um það sérstaklega í ræðu minni eða í umræðunni í dag, fagna því sérstaklega að nýju stofnanirnar, Landgræðslan, Vatnamælingar og Skógræktin, séu komnar til (Forseti hringir.) umhverfisráðuneytisins. Starf þeirra er blómlegt og gott og hefur verið í 100 ár, landgræðsla og skógrækt, og mun verða það áfram næstu 100 árin.