135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[15:05]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég kem fyrst og fremst upp í 3. umr. til þess að gera grein fyrir breytingartillögu sem ég legg fram sem formaður utanríkismálanefndar. Þegar nefndin afgreiddi frumvarpið aftur út til þingsins í vor var gert ráð fyrir því að þingið mundi ná að afgreiða frumvarpið sem lög fyrir sumarið. Í bráðabirgðaákvæði var reiknað með að stjórn Þróunarsamvinnustofnunar héldi umboði sínu fram á haust og við myndum kjósa í Þróunarsamvinnunefnd á þessu septemberþingi. Þar sem frumvarpið varð ekki að lögum í vor en allt stefnir í að það verði afgreitt á þessu haustþingi þarf að breyta bráðabirgðaákvæðinu. Um það snýst breytingartillaga sem liggur frammi á þskj. 1337.

Ákvæðið gerði áður ráð fyrir því að stjórnin héldi umboði sínu þar til þingið hefði kosið í Þróunarsamvinnunefndina og með sama hætti gerum við nú ráð fyrir því að málið verði afgreitt þegar nýtt þing kemur saman í október. Tillagan hljóðar því upp á að stjórn Þróunarsamvinnustofnunar, sem enn starfar, haldi umboði sínu óbreyttu til 1. nóvember. Eins og sjá má er þetta fyrst og fremst tæknilegs eðlis og mögulega komið til af bjartsýni utanríkismálanefndar um að málið mundi ná að klárast í vor.

Ég vil líka láta þess getið að e.t.v. hefði verið heppilegast að vísa bráðabirgðaákvæðinu áfram til 3. umr. og fella það síðan niður en málið var afgreitt óbreytt á milli 2. og 3. umr. Þá ber að horfa til þess að við 2. umr. málsins gerði ég strax grein fyrir því að þessi breytingartillaga kæmi fram og ég tel einsýnt að við þurfum að afgreiða hana.