135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[15:23]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þó að ekki hafi verið beint beinni spurningu til mín get ég alveg tekið undir það að nefndin var sammála um að taka þessa reglugerðarheimild ráðherra út. Við töldum einfaldlega óþarft að staðfesta það í bráðabirgðalögunum, sérstaklega í ljósi þess að viðskiptaráðuneytið er nú að fara að endurskoða lögin í heild sinni. Þetta eru bara atriði sem ættu að koma til skoðunar þar að okkar mati og að sama skapi hvort útvíkka þurfi gildissvið viðlagatryggingar eða hvort bæta þurfi eftirlitið og annað slíkt. Það tækifæri er einfaldlega til staðar að endurskoðunin mun eiga sér stað.

Varðandi skilyrði um setningu bráðabirgðalaga þá tel ég mig hafa rakið það hér að ég tel að þau skilyrði hafi að öllu leyti verið uppfyllt. Að sama skapi hef ég vísað í það hvernig við eigum að nálgast umfjöllun um það hvort skilyrðin hafi verið uppfyllt eða ekki, þar get ég bæði vísað í dóma og fræðimenn sem hafa túlkað að bráðabirgðalöggjafinn hafi þessar rúmu heimildir, allfrjálsar hendur eins og sagt er. Það mundi kannski kveða við annan tón ef menn ættu að beita þrengjandi lögskýringu hvað þetta varðar en menn hafa ekki gert það hvorki fræðimenn né dómstólar. Auðvitað tek ég undir áhyggjur þingmanna sem höfðu áhyggjur af því við 1. umr. þessa máls hvort setja ætti bráðabirgðalög yfirleitt. Ég tel einfaldlega að sú heimild eigi að vera fyrir hendi. Menn eiga að nota hana sparlega, ríkisstjórnin hefur gert það undanfarin ár. Þetta er tæki til að bregðast við í neyðartilvikum og ef, eins og ég sagði áðan, einn mesti jarðskjálfti og mesta eignatjón í Íslandssögunni uppfyllir ekki þau skilyrði þá veit ég ekki hvað gerir það, frú forseti.