135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[15:26]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér fannst örla á því hér í ræðum áðan að bætur til þeirra sem orðið hafa fyrir tjóni í jarðskjálftunum á Suðurlandi fengjust fremur greiddar ef menn féllust á að rétt væri að setja bráðabirgðalög. Þeir sem þessi orð létu falla hér áðan verða að tala skýrar svo að ljóst sé hvort ég skildi rétt eða ekki.

Til þess að bregðast við þessu þá vil ég segja: Eitt er tjón sem menn verða fyrir og fá bætur vegna þess, það er ákveðið í lögum. Það hefur verið í lögum mjög lengi og ákvarðaðar bætur fyrir það sem hingað til hafa verið taldar sanngjarnar.

Annað er hvort ráðherrar sem fara með bráðabirgðalagavald eigi að nýta sér það til þess að breyta hlutunum, bregðast við og rökstyðja með þessum hætti. Ég held að menn verði að aðskilja þessi mál og mér finnst slæmt ef menn ætla sér að reyna að draga fram þessi tvö sjónarmið og blanda þeim saman því að það er ekki sanngjörn umræða. Þeir, þar á meðal ég, sem tala fyrir því að ríkisstjórnin eigi ekki að nýta bráðabirgðalagavaldið nema samkvæmt þeim skilningi sem Alþingi setti á sínum tíma eru auðvitað ekki að tala gegn þeim sem verða fyrir tjóni. Það er ómálefnaleg framsetning á málinu að tefla þessu fram sem mótrökum fyrir því sjónarmiði að löggjafarvaldið eigi að vera hjá Alþingi. Ég vænti þess að menn fari ekki lengra inn á þær brautir í þessu máli.

Ég vil vísa til þess að á síðasta ári voru sett bráðabirgðalög. Þá brást þingflokkur Frjálslynda flokksins við því með því að álykta einróma á þann veg að það sé Alþingi sem eigi að setja lögin en ekki ráðherra. Við fluttum harða gagnrýni hér þingsölum einmitt um þann þátt málsins að ráðherrann hefði tekið sér lagavaldið. Ekki hefur verið gerð nein önnur samþykkt í þingflokknum um það mál. Ég held mig við þá afstöðu sem þingflokkurinn markaði sér á þeim tíma til þessa þáttar málsins hvort ráðherrar eigi að beita bráðabirgðalagavaldi eða ekki. Í málinu er það grundvallaratriði hvort brýna nauðsyn hafi borið til að setja bráðabirgðalög. Það er það sem málið hvílir á. Bar brýna nauðsyn til?

Ef við skoðum rökstuðninginn í sjálfum bráðabirgðalögunum er hann sá að brýna nauðsyn hafi borið til vegna þess að hækkun á byggingarvísitölu hafi leitt til þess að eigin áhætta á tjónum á innbúi þætti óeðlilega há. Það er rökstuðningurinn. Gott og vel. Hvað athugaði nefndin í þessu máli? Það kemur ekki skýrt fram en ef menn skoða verðlagsþróunina frá þeim tíma sem lögin voru sett — menn geta þess vegna valið sér annað tímamark eins og frá jarðskjálftunum árið 2000, það skiptir ekki máli, það leiðir til sömu niðurstöðu. Ef menn skoða verðlagsþróunina frá 1992 frá því að lögin voru sett hefur byggingarvísitalan hækkað um 114% og það hefur leitt til þess að sjálfsábyrgðin — þegar á hana reynir vegna þess að almenna sjálfsábyrgðin er 5% af tjóni. Þegar tjónið er lágt reynir á lágmarksfjárhæðina og lágmarksfjárhæðin var sett í lögunum 40 þús. Þessi 114% hækkun á byggingarvísitölu leiðir til þess að það eru 85 þús. kr.

Á sama tíma hefur hækkun á launavísitölu verið 162% sem þýðir að tekjur manna hafa hækkað mun meira en hækkun á byggingarvísitölu. Þessar tölur segja að menn eru betur í stakk búnir og hafa meiri tekjur til að bera sjálfsábyrgð sína en áður var. Kjörin hafa ekki versnað heldur batnað. Þess vegna eru þessi rök í aðfarakafla bráðabirgðalaganna að mínu viti ósönn. Það er verið að bera fram ósanna fullyrðingu.

Í öðru lagi ef staðan væri sú að tjónið sé svo mikið og verðlag hafi hækkað svo að menn eigi erfiðara með að bera það en áætlað var þegar lögin voru sett hefðu menn breytt lögunum þannig að þau næðu yfir öll meiri háttar tjón. Til þess að gera það hefði þurft að breyta sjálfsábyrgðinni úr 5% í eitthvað lægra. Það er ekki gert. Í bráðabirgðalögunum er niðurstaðan sú að þeir sem verða fyrir miklu tjóni bera það áfram óbreytt. Lögin eru á engan hátt ívilnandi fyrir þá sem verða fyrir miklu tjóni hvort sem það er á fasteign eða innbúi. Það eru algjörlega óbreyttar reglur varðandi tjón á fasteignum og það eru óbreyttar reglur varðandi tjón á innbúi ef tjón á innbúi er yfir 1.700 þús. Með öðrum orðum: Þeir sem urðu fyrir miklu tjóni njóta einskis af þessum lögum. Þeir sem njóta ávinnings af þessum lögum eru þeir sem urðu fyrir tjóni á innbúi sem var tiltölulega lítið.

Það liggur ekkert fyrir frá Viðlagatryggingu Íslands hvað lögin leiða af sér í fjárhæðum til tjónþola. Það mun ekkert liggja fyrir fyrr en einhvern tímann eftir nokkra mánuði. En það má áætla miðað við fyrirliggjandi upplýsingar að það séu fáar milljónir sem sjálfsábyrgðin lækki fyrir vikið. Hafi menn betri upplýsingar eru þær vel þegnar.

Þá spyr ég, burt séð frá afstöðu til þess hvort breyta eigi fjárhæðum til sjálfsábyrgðar — og af því ég sé að viðskiptaráðherra er hér í salnum þá vil ég gjarnan að hann leggi við hlustir: Bar brýna nauðsyn til að setja bráðabirgðalög sem létta aðeins kostnaðinn hjá þeim sem urðu fyrir litlu tjóni? Er það einhver nýr skilningur á orðasambandinu „ber brýna nauðsyn til“? Ef mjög margir hefðu orðið fyrir mun meira tjóni en gert var ráð fyrir og sett hefðu verið lög til að draga úr því höggi sem menn hefðu orðið fyrir, þá hefði ég skilið það en svo er ekki. Með lagasetningunni er bara verið að ívilna þeim sem verða fyrir litlu tjóni.

Ég verð að segja að ég fellst ekki á að það sé rökstuðningur sem sé nægilegur til að segja að brýna nauðsyn hafi borið til. Alls ekki, ég get ekki fallist á það. Ég get heldur ekki fallist á að það sé neyðartilvik eins og framsögumaður nefndarinnar nefndi og var að reyna að rökstyðja málið með þeim rökum. Nei, þetta var ekki neyðartilvik vegna þess að lögin voru fyrir hendi. Þau voru í gildi, þau hafa virkað vel og virkuðu vel. Ekki var um neyðartilvik að ræða þannig að ég er ósammála framsögumanni nefndarinnar um það.

Lágmarkið í sjálfu sér er allt annað mál. Það er allt önnur umræða hvort það eigi að vera eins og það er eða hvort það eigi að vera lægra eða eitthvað slíkt. Ef menn leggja mikla ástæðu á að hafa lægri sjálfsábyrgð finnst mér engin ástæða til þess að fara í deilur um það mál. Það er bara eitthvað sem menn koma með inn í þingið. En það er þá eitthvað sem gengið er frá í lögunum vegna þess að þegar menn gera breytingar sem þýða aukin útgjöld fyrir Viðlagatryggingu skoða menn væntanlega tekjuhliðina líka og gera nægilegar breytingar á henni til þess að lagasetningin haldi gildi sínu og tilgangi. Það er ekki nóg að gera breytingar sem auka útgjöld ef ekki verður séð til þess að tryggingin hafi nægar tekjur til þess að standa undir þeim útgjöldum. Trygging er þannig í eðli sínu.

Ég er ekki viss um að hafa eigi sjálfsábyrgðina mjög lága í svona tilvikum. Það má vel vera að 20 eða 30 þús. kr. séu í lagi. En því lægri sem menn hafa sjálfsábyrgðina því meira kalla menn á tilkynningar um tjón sem eru mjög lág og kannski svo lág að það svarar varla kostnaði við allt umstangið, skriffinnskuna, matið og pappírana. Það er þess vegna sem lágmarkið er sett, til þess að setja einhver hæfileg mörk svo að hlutirnir séu í skynsamlegum farvegi.

Ég get ekki fallist á rök framsögumanns nefndarinnar í þessu máli og vísa honum og kannski ráðherranum líka á álit Samfylkingarinnar á bráðabirgðalögunum frá 2003 sem liggur fyrir í þingtíðindum. Álitið er frá minni hluta landbúnaðarnefndar þar sem Vinstri grænir og Samfylkingin sameinuðust í því mati sínu að ekki hafi verið rétt að setja bráðabirgðalögin og það stæðist ekki stjórnarskrána að hafa beitt bráðabirgðalagavaldinu á þeim tíma. Ég get lesið upp úr ræðum framsögumanns minni hlutans, hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, eða hv. þm. Helga Hjörvars og fleiri sem tóku til máls af hálfu Samfylkingarinnar og töluðu fyrir því sjónarmiði að það sé Alþingi sem setji lögin en ráðherrarnir eigi ekki að beita þeim í afmörkuðum tilvikum við aðstæður þar sem þingið getur sjálft brugðist við.

Ég verð að segja að viðsnúningur Samfylkingarinnar í þessu máli er alveg ótrúlegur. Flokkurinn er búinn að vera í eitt og hálft ár í ríkisstjórn og hann er tvisvar sinnum búinn að setja bráðabirgðalög um afmarkað málefni. Ég dreg ekkert úr þýðingu málefnanna í hvoru tilvikinu fyrir sig en þau eru afmörkuð. Það er fyllilega á færi Alþingis að bregðast við og gera þær ráðstafanir sem þurfa þykir, það þarf ekki ráðherra til að taka af okkur ómakið í þeim efnum.

Má ég minna á að hér fór fram í gær að frumkvæði varaformanns Vinstri grænna umræða um að Alþingi væri hér ekki í verðugu hlutverki. Ríkisstjórnin réði hér öllu, aðeins málefni og frumvörp ríkisstjórnarinnar fengju hér afgreiðslu en ekki þingmannafrumvörp. Hvað eru menn að gera með því að skrifa upp á þessa gjörð viðskiptaráðherrans og ríkisstjórnarinnar? Menn afhenda ríkisstjórninni þann skilning á bráðabirgðalagavaldinu að hún geti beitt því í lítils háttar tilvikum sem varða tiltölulega fáa tiltölulega lítið. Þá eru menn búnir að gefa ráðherrunum algjörlega lausan tauminn um það að beita bráðabirgðalögum nánast hvenær sem þeim sýnist. Svo koma menn hér upp og kvarta yfir því að þingið sé ekki burðugt gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég sé ekki betur en að fulltrúi vinstri grænna skrifi upp á þetta nefndarálit en varaformaðurinn kvartaði yfir að ríkisstjórnin hefði allt of mikið um lagasetningu að segja.

Menn reisa ekki þátt Alþingis með því að skrifa upp á svona starfshætti í ríkisstjórninni. Menn reisa stöðu Alþingis með því að þingmenn segi ráðherrunum hverjir það eru sem eiga að setja lögin og vandi um fyrir þeim þegar það á við. Það reynir nefnilega á þingmenn þegar þeir eru í stjórn. Þá þurfa þeir að tala við ráðherra sína og segja við þá það sama og þeir sögðu þegar þeir voru í stjórnarandstöðu: Svona gerum við ekki. Það verða menn líka að gera þegar þeir eru komnir í stjórn. Þá reynir á þingmenn, hvort það er bein í bakinu á þeim eða brjósk, hvort menn eru bara hér sem skósveinar og vinnumenn en ekki sjálfstæðir þingmenn eins og þeir eru kosnir til að vera.

Mér finnst vanta mikið upp á þegar ég les nefndarálitið að það sé skrifað af alþingismönnum sem hafa fullan metnað fyrir Alþingi. Þetta er svona bætiflákanefndarálit fyrir frumhlaup með beitingu bráðabirgðalagavaldsins. Þannig finnst mér það líta út, virðulegi forseti.

Hér var vísað í Ragnhildi Helgadóttur og hún hefur væntanlega komið fyrir nefndina þó að ég eigi ekki von á því að fyrir liggi skriflegt álit hennar. Það hefði verið fengur að því ef nefndin hefði beðið um skriflegt álit sem hægt væri að vísa til og styðjast við í framtíðinni. Þessi sami lögfræðingur var fenginn til að koma árið 2003 þegar landbúnaðarnefnd hafði til meðferðar bráðabirgðalög þáverandi landbúnaðarráðherra. Lögspekingurinn komst að þeirri niðurstöðu þá eins og nú að ekki hefði verið farið yfir þau mörk sem bráðabirgðalöggjöfin hafði en sagði þó að nær hefði verið gengið löggjafarvaldinu en áður.

Þá voru þingmenn Samfylkingarinnar á einum máli um þessi ágæti lögfræðingur hefði ekki rétt fyrir sér, heldur hefði að þeirra mati ráðherrann sem þá sat gengið lengra en heimildir stjórnarskrárinnar veittu honum. Nú kemur þingmaður Samfylkingarinnar, vísar í þennan sama lögspeking sem segir það sama og er núna sammála honum. Hvers vegna? Jú. Ég vil leyfa mér að segja að það er bara vegna þess að það er þeirra eigin ráðherra sem á í hlut. Afstaða þeirra virðist mér sveiflast eftir því hver á í hlut, hvort þau eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Hvernig getur þingið orðið burðugt sem löggjafarvald ef þingmenn þess hafa mismunandi skoðun á sama máli eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu? Það er fyrsta skrefið sem þingmenn þurfa að stíga, að gera það upp við sig hvort þeir vilji vera samkvæmir sjálfum sér og þora að horfa framan í eigin forustumenn og segja hvað þeim býr í brjósti. Það er létt verk að þora það þegar menn tala við fólk úr öðrum flokkum og öðrum sóknum en það reynir fyrst á menn þegar þeir þurfa að horfast í augu við sína eigin forustumenn. Við breytum aldrei hlutunum ef menn hafa ekki þá staðfestu sem þarf við svona aðstæður.

Það má auðvitað margt fleira segja um þetta mál en ég ætla svo sem ekki að fara lengra. Ég flutti ræðu um málið við 1. umr. og gerði grein fyrir sjónarmiðum mínum þá og það er óþarfi að endurtaka þau hér. Ég veit að ráðherra hefur lesið ræðuna þannig að ég þarf ekkert að lesa hana yfir honum aftur. Honum er alveg ljós hugur minn í málinu. (Gripið fram í.) Hann sagði mér það og ég er viss um það. Ég dreg ekki í efa að hann fari með rétt mál í því.

En ég tel þó að sé til bóta sú breyting sem ég nefndi hér, að fella brott ráðherraheimildina til þess að hafa breytilega sjálfsábyrgð. Hún á auðvitað ekki heima í lögunum, hvorki í bráðabirgðalögum eða öðrum lögum. Ég mun styðja þá breytingu. Ég mun ekki greiða atkvæði gegn lækkun sjálfsábyrgðarinnar sem almenna breytingu, ég mun líklega sitja hjá við það, en ég mun greiða atkvæði gegn því að bráðabirgðalögunum skyldi hafa verið beitt. Það var afstaða mín á síðasta ári. Málsatvik eru það lík í þessum málum að ekki er hægt annað en að komast að sömu niðurstöðu.

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu áður að það hafi verið rétt að setja bráðabirgðalög og hef staðið að því. Það var eftir 11. september 2001 fyrir nákvæmlega sjö árum. Þá var millilandaflugið í algjöru uppnámi og flugvélar fengu ekki að fara á loft af því engin tryggingafélög þorðu að ábyrgjast tryggingar og veita þær. Þá var gripið til þess ráðs að gefa út bráðabirgðalög þar sem ríkið ábyrgðist allan flugflota landsmanna. Það má kannski segja núna þegar málið er um garð gengið að ef reynt hefði á þessi lög hefði ríkið sennilega orðið gjaldþrota. En það var ekkert annað að gera. Það varð að bregðast skjótt við og það var gert. Ég studdi það á þeim tíma þegar málsatvik voru þannig að ekki var um annað að ræða, virðulegi forseti.