135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[15:46]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil gera athugasemdir við ræðu hv. þingmanns og spyrja spurninga. Hv. þingmaður óskar þess að við gerum greinarmun á efnisatriðum laganna og svo setningu bráðabirgðalaganna en ég heyrði ekki annað en að stór hluti í fyrri hluta ræðu hv. þingmanns lyti einmitt að efnisatriðum laganna. Mér sýndist hann finna allt því til foráttu að við gerðum þessa efnislegu breytingu að lækka eigin áhættuna. Hv. þingmaður hefur vísað í að ef litið sé til hækkunar á launavísitölu ætti eigin áhættan að vera 105 þús. kr. en ekki 90 þús. kr. eins og var áður en við breyttum lögunum. Hv. þingmaður gerði mikinn mat úr því hverjir nytu góðs af lögunum og hverjir ekki. Mér finnst leika vafi á hver afstaða hv. þingmanns er til efnisatriða laganna því að mér fannst hann ekki beint vera að styðja þau burt séð frá setningu laganna. Það væri þess vegna ágætt að fá það skýrar hér í þingsal hvort hann styðji þessa lækkun eða ekki.

Hv. þingmaður segir líka að lögin hafi virkað vel og þetta hafi ekki verið neyðartilvik. Ég tel að Suðurlandsskjálftarnir séu neyðartilvik. Ég tel að lögin hafi ekki virkað vel eins og þau voru í ljósi þess að eigin áhætta hefur hækkað um 80% frá árinu 2000. Hv. þingmaður gerir mikið úr því að honum finnist að Alþingi eigi að setja lög. Segja þingmenn Samfylkingarinnar eitthvað annað, hv. þingmaður? Við vitum að það er heimild í stjórnarskrá til að setja bráðabirgðalög í undantekningartilvikum og þetta er eitt af þeim tilvikum.

Svo gerir hv. þingmaður mikið úr einhverjum viðsnúningi Samfylkingarinnar. Ég veit ekki betur en að hv. þingmaður styddi setningu bráðabirgðalaga þegar lögum um lax- og silungsveiði var breytt, og með fullri virðingu fyrir þeim ágætu lögum tel ég að viðbrögð við Suðurlandsskjálftunum séu aðeins mikilvægari en breytingar á lax- og silungsveiði. Þá var hv. þingmaður í stjórn en er núna í stjórnarandstöðu. Hann ætti að vara sig á að kasta grjóti úr glerhúsi.

Ég frábið mér þann hroka hv. þingmanns að Alþingi setji niður við það að (Forseti hringir.) staðfesta þessi bráðabirgðalög og að þingmenn séu ekki sjálfstæðir ef þeir einfaldlega eru ósammála hv. þingmanni, því að hv. þingmaður er að mínu mati eini þingmaðurinn sem er með þá afstöðu sem hann hefur hér.