135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[15:49]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson getur alveg reitt sig á að ég hef sömu afstöðu núna og áður. Það er kannski meira en sagt verður um þá félaga hans sem tóku til máls árið 2003. Á þeim tíma voru sett bráðabirgðalög sem höfðu áður verið til umfjöllunar í landbúnaðarnefnd í frumvarpsformi. Nefndin var ekki tilbúin til að greiða fyrir því að frumvarpið yrði að lögum, ekki óbreytt. Þegar málið kom til landbúnaðarnefndar sem bráðabirgðalagafrumvarp brást landbúnaðarnefnd við á sama hátt og hún hafði gert vorið áður og gerði átta breytingar á frumvarpinu. Það segir einfaldlega það að bráðabirgðalögin höfðu ekki meirihlutastuðning á Alþingi og það var rangt að setja þau og væri kannski skynsamlegt hjá ráðherrum að temja sér það að kanna hvort meiri hluti sé fyrir því sem þeir ætla sér að gera. Samfylkingin var á þeim tíma algerlega andvíg því að þau bráðabirgðalög væru sett og greiddi atkvæði gegn þeim. Þannig liggur það fyrir, virðulegi forseti.

Afstaða mín liggur fyrir alveg skýr, ég var búinn að rekja það hér, ég fór yfir það hver rökstuðningurinn er í þessu frumvarpi eða bráðabirgðalögum fyrir því að rétt sé að beita þeim. Rökstuðningurinn er sá að sjálfsábyrgðin hafi hækkað svo mikið. Ég gerði grein fyrir því að þetta eru ekki rétt rök. Hækkunin á launum hefur verið meiri en hækkunin á byggingarvísitölu þannig að þetta er ekki íþyngjandi ástand frá því sem var. Það er fremur á hinn veginn, að menn eru betur í stakk búnir, menn hafa meiri tekjur til að bera sína sjálfsábyrgð núna en árið 2000 eða fyrr. Þess vegna getur það ástand ekki verið rökstuðningur fyrir því að setja bráðabirgðalög með tilvísun um að brýna nauðsyn beri til og það sé neyðarástand. Hjá hverjum er neyðarástand, virðulegi forseti?