135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[15:51]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson staðfesta það sem mig grunaði, að hann hefur efnislegar athugasemdir við þetta atriði og heldur áfram að gera athugasemdir við þessa lækkun á eigin áhættu og bendir á að fólk ætti frekar að vera í stakk búið að mæta hækkun undanfarinna ára vegna hærri tekna.

Fyrir mér er þetta mjög einfalt mál, ég sé tölurnar fyrir framan mig um að hér hafi átt sér stað mikil hækkun á byggingarvísitölu sem vill svo til að hækkar sömuleiðis eigin áhættu. Við sjáum sömuleiðis að eigin áhætta í þágildandi umhverfi var orðin fjórum til níu sinnum hærri en þekktist hjá vátryggingafélögunum sjálfum. Ég tel því að löggjafinn hefði átt að bregðast við þarna. Það vildi svo til að Alþingi var ekki að störfum þegar menn lögðu mat á þetta á sínum tíma, reyndar urðu skjálftarnir á síðasta degi þings ef mig man rétt. Þess vegna tel ég fullkomlega réttlætanlegt af bráðabirgðalöggjafanum að bregðast við með þessum hætti.

Það getur vel verið að hv. þingmann og allan þingheim greini á um hvað er brýn nauðsyn og hvað ekki og við getum rætt það í þaula fram á nótt. Ég tel einfaldlega að brýna nauðsyn hafi borið til, hér urðu óvæntar náttúruhamfarir sem þurfti að bregðast við. Fólk lenti í ákveðinni óvissu og eignatjóni sem bráðabirgðalöggjafinn tók ákvörðun um að bregðast við og við í viðskiptanefnd tökum sömuleiðis undir þau sjónarmið. Mér finnst þetta mjög einfalt. En ég ítreka ábendingu mína um viðsnúning hv. þingmanns að enda þótt hann hafi staðið að breytingum á bráðabirgðalögunum um lax- og silungsveiði var hann í stjórn þá og staðfesti bráðabirgðalögin með þeim hætti. Nú er hann kominn í stjórnarandstöðu og þá kveður við allt annan tón.

Samfylkingin hefur stutt bráðabirgðalög í stjórnarandstöðu en líka verið á móti þeim. Samfylkingin leggur heildstætt mat á hvort þörf hafi verið fyrir hendi eða ekki. Skoðanir okkar fara ekkert eftir því hvort við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu eins og dæmin sanna og ég held að hv. þingmaður ætti að passa sig á að ásaka aðra þingmenn um viðsnúning (Forseti hringir.) eða tvískinnung.